21.3.07


Hér má sjá okkur Marcel á Burning Man hátíðinni í Nevada, rétt áður en við sundruðumst endanlega, sumarið 2004.

En nú aftur að ferðalagi okkar Marcels, eftir Skriðuklaustur:
"Roly poly, scrambled eggs for breakfast" söng Marcel fyrir mig og kom með morgunmat í rúmið, sem þó var ekki rúm heldur grjóthart aftursætið á jeppanum, sem staðsettur var í miðjum Vatnsdal og ekkert í kring nema endalausar þúfur og hólar. Á þessu ferðalagi var ég að kynnast bæði góðum og slæmum eiginleikum þessa hávaxna og óvenjulega Fransmanns:
Kostur: Kemur með morgunmat í rúmið.
Galli: Syngur hallærislega tónlist með falskri falsetturöddu.
Kostur: Kann að meta fyndin orð eins og "kísilgúr", "mannbroddar" og "glens" (og í raun öll orð sem byrja á "gl-").
Galli:Kann ekki að bera fram "h".
Kostur: Sýndargáfumennskan. Ef það er eitthvað sem ég kann að meta í fari fólks þá er það sjálfsbjargarviðleitni. "If you can't dazzle them with brilliance, baffle them with bullshit" sagði Donald Rumsfeld við mig þegar ég var á ráðstefnu um þjóðaröryggismál Norður-Írlands, sami maður og sagði seinna "There are known knowns. These are things we know that we know. There are known unknowns. That is to say, there are things that we know we don't know. But there are also unknown unknowns. There are things we don't know we don't know. " (þetta ættir þú, Karel, að kannast við, þú mikli amatör nautshægða)
Galli: Þrjóskur og þver, og snarlyginn. En það hefði ég nú getað sagt mér sjálf, þekkjandi falsaraferil hans.
Og svo má áfram telja.

Á meðan ég gæddi mér á gómsætum eggjunum og beikoninu fór ég yfir verkefni dagsins. Alveg síðan Vísindavefurinn hafði birt grein þess efnis að hinir margrómuðu Vatnsdalshólar væru í reynd óteljandi, líkt og eyjarnar í Breiðafirði og vötnin á Arnarvatnsheiði hafði ég fussað og rifist um það við Marcel að auðvitað væri hægt að telja þá, það hefði bara enginn nennt því. Hólarnir höfðu verið okkur nýbökuðum hjónakornunum eitt eitraðasta þrætueplið hingað til, og var því engin leið önnur en að settla þetta með talningu. Og mér tókst ætlunarverkið, hólarnir voru ekki nema 13.882, ef maður telur ekki minni háttar þúfur með, en 39.402 ef allt er meðtalið, og þá tel ég ekki geirvörturnar á brjóstunum með, sem, eins og við öll vitum, eru bara fuglakúkur.

Á leiðinni heim keyrði Marcel og leyfði mér að sofa, uppgefinni eftir talninguna. Seinna sagði hann mér að í svefni hefði vísifingur minn haldið áfram að hnykkjast og skjálfa en hann hefði ekki viljað vekja mig því þetta hefði haldið honum vakandi og flissandi við stýrið alla leiðina í gegnum Hrútafjörðinn, og þakkaði hann mér fyrir framlag mitt, þar sem ekki var hægt að reiða sig á hughrif náttúrunnar í þessum hluta landsins til að halda sér vakandi.

Ég skrifa ykkur nú, dyggu lesendur, frá Salt Lake City í Utah-fylki þar sem ég hyggst sækja nokkra fundi með mormónskum vinum mínum sem ég kynntist á kynsvalli á Red Hot Desert Mótelinu rétt utan við Carson City, en þau eru voða líbó og eru svo ofboðslega flippuð að vera ennþá með líkamshár (ég dáist að þeim fyrir að geta það, þegar allir vita að líkamsdúnn safnar bara skít og fýlu). Ég heyri bráðum í ykkur, og vinsamlegast sprengið ekki kommentakerfið, mér hefur reynst erfitt að svara þessari ofgnótt athugasemda sem mér hafa borist.

1 Comments:

At 12:49 PM, Blogger Guðmundur Einar said...

Já, þetta er harður heimur. En maður heldur áfram. Gaman að þessu hjá þér.

 

Post a Comment

<< Home