Lupus in fabula
Áður en ég flutti alfarið til Íslands í kjölfar fyrstu heimsóknar minnar hingað, í júnímánuði ársins 2002, hefði mig aldrei grunað að ég myndi taka slíku ástfóstri við þessa hrjóstrugu eyðimörk sem mér fannst einkenna bæði land og þjóð. Ég tók strax eftir þurru, kaldranalegu og yfirlætislegu viðmóti þessa fólks á jaðri heimskringlunnar sem fannst sem restin af henni væri mönnuð aumkunarverðum og frumstæðum þriðja heims aumingjum, sem ekki ættu allir fartölvu, ipod og fjórhjóladrifinn jeppa, og sem mest af öllu langaði til að vera Íslendingar.
Ég sagði við Ian, kanadískan strák sem ég kynntist á bráðamóttökunni á Hvolsvelli, þegar verið var að hlúa að brunasárum hans (sem hann hafði hlotið í einhvers konar mönunarleik alpha karlmanna í krítísku návígi við Strokk; og ég hafði fengið öngul í hnakkann í túristaveiðiferð):
"Þetta land er dauðadæmt. Þetta er Sódóma og Gómorra til samans, hér fyrirfinnst syndsamlegasta og spilltasta fólk jarðar, ofurselt græðgi og saurlifnaði... sem drýgt hefur hór með djöflinum og selt honum sálu sína. Virðingarverð gildi okkar hafa þau óvirt og smánað, og útþynnt barmafullan kaleika Kristsblóðs með eiturvatni!"
Ian var mjög sammála, sagði "Right on".
En þá heyrum við að hurðinni að stofu okkar er lukt upp með látum.
Það er ekki um að villast, þetta er lúpusinn mikli. Úlfurinn. Djöfullinn sjálfur.
Hann gengur hægt um stofuna, starir til skiptis á mig og Ian, brosir og berar breiðan og hvassan tanngarðinn og stynur taktvisst. Þegar hann sér að okkur er starsýnt á tennur hans, segir hann: "Ég fæddist með tennur. Mér var ætlað að bíta." Þvínæst leggur hann hönd sína á höfuð mitt. Ég hafði alltaf ímyndað mér að Djöfullinn væri með ógeðslegar beinagrindarkrumlur eins og Dauðinn í Monty Python's Meaning of Life (sem bendir með ógnarlöngum vísifingri á lifrarpateð góða), en þessi skartaði vel snyrtum og mjúkum höndum sem minntu helst á silkiofnar galdraslæður.
"Dr.Curly Mclaughlin, þú hefur gerst sek um guðlast og formælingar og ert hérmeð dæmd til að elska og þjóna hinni íslensku þjóð, vera auðmjúkur þræll hennar og láta gott af þér leiða svo megi hún af því verða betri þjóð. Ég læt þér í té íslenskukunnáttu ásamt grunnþekkingu á alþýðu-og menningarsögu Íslands. Afplánun þín hefst samstundis."
Þennan örlagaríka dag hófst ástarsamband mitt við Ísland. En svo fór allt fjandans til þegar ég elti ástina til Spitzbergen. En meira af því næst.
Your's truly,
Dr.Curly