19.4.07

Eftir dvöl mína í Lapplandi skellti ég mér til Íslands í nokkrar vikur, fór í gufubað í Vesturbæjarlauginni og ræddi aðeins við nokkra unga menn, eflaust verðandi menntamálaráðherra og stórskáld framtíðarinnar, og ég gerði mér grein fyrir því að ég hefði alltaf haft einhvers konar heimur-versnandi-fer-fordóma fyrir ungu fólki. En eftir 10 mínútur í gufunni rann það upp fyrir mér að stóru spurningarnar myndu alltaf vera til staðar, þær birtust bara í mismunandi myndum. Við þurfum því engar áhyggjur að hafa af framtíðinni:

-Æ, mér finnst bara gúdd sjitt að vera með heila, og fokking not'ann...
- Já, þú meinar að þú sért sumsé Res Cogitans...

- Nei, ég meina, þú veist, þá veit ég að ég er ekki fokking dauður, ... æ þarna, þú veist ... að ég er til, eða eikkað...
- Já, þú ert semsagt að vitna í Cogito ergo sum...

- Nei, æi, sko, sjitt maður, samt sko ... ég bara eikkerneginn varð svona, eins og ég er...
- Já, þú ert að tala um Tabula Rasa þá, er það ekki?

Hver nennir að snobba fyrir latínunni þegar við höfum nútímaheimspekinga eins og þessa ungu menn?

Dr.Curly

15.4.07

Berkeley, CA, apríl 2007

Sumarið 2003 fór ég semsagt að hitta Marcel í lappneskum hugleiðingarbúðum, sem staðsettar voru í 2000 metra hæð, á toppi Kebnekaise fjalls nálægt Kirunaborg. Þar var boðið upp á að hugleiða í 6 tíma á dag - valin viðfangsefni- undir heiðbjörtum miðnæturhimni, í glampandi sól og stingandi frosti, á milli þess sem spilað var hackey-sack, æft fimleika, lesið Wittgenstein og rýnt í myndir eftir Dalí. Marcel hafði lesið um þessar búðir á heimasíðu aðdáenda Tom Stoppards og verksins "Jumpers" (sem fjallaði um heimspekinga sem stunduðu loftfimleika). Marcel fannst samlíkingin á líkamlegri og huglegri fimi augljós en samt svo spennandi að hann hélt samstundis á enn nyrðri slóðir en Ísland í von um að liðka sig innra sem ytra.
Þegar ég kom í búðirnar var Marcel orðinn ansi liðugur - hann gat farið villulaust með fyrsta kaflann úr Tractatus Logico-Philosophicus eftir Wittgenstein, haldið hackey-sacknum á lofti með öxlunum einum og legið allsber hreyfingarlaus í snjónum í klukkutíma.

Hér má sjá gúrúinn okkar Marcels, Mindra Sandhavaruni, leika hackey-sack á fjallinu.

Fyrsta kvöldið mitt var okkur gert að hugleiða frið í Mið-Austurlöndum. Mér leið eins og í tímaritgerð í menntaskóla og viðfangsefnið væri torrætt og óinspírerandi. Ég opnaði augun aðeins og sá að Marcel glotti sjálfsöruggur og grobbinn, enda mikill áhugamaður um oxýmoróna. Ég heyrði útundan mér að Mindra klappaði honum á kinnina og sagði "Gott Marcel, góð pæling, blæjur og blæjubílar...merkilegt". Svo fann ég að hönd hans strauk mína kinn - "Curly, þú ert ekki að hugleiða, þú ert bara að hugsa. Hugleiddu það. Og mundu "Um það sem maður getur ekki talað verður maður að þegja".

Næstu vikur varð ég þó lunknari við leikfimi hugar og líkama. Mindra kenndi mér að rýna í augu og áru fólks til að lesa hugsanir þeirra, og það var þá sem mig byrjaði að gruna að Marcel leyndi mig einhverju. Dag einn þegar við biðum í röðinni í kaffiteríuna heyrði ég hann hugsa "Ég ætla ekki að fá mér rúgbrauð í þetta sinn, heldur bagettubrauð". Sama kvöld sá ég smásögu eftir Maupassant á náttborðinu hans, og morguninn eftir vildi hann endilega njóta ásta í trúboðastellingunni - þegar hann vissi að mér hefði alltaf þótt það minna mig á strangkaþólskt uppeldi mitt. Ég ákvað að minnast ekkert á þetta við hann, ... "en inni í mér var haglél" eins og Guðrún Ómars sagði eitt sinn.