Sæl Curly, ég kýs að láta nafn míns ógetið. Ég hef lengi verið að velta fyrir mér þessu með letina. Er leti dyggð eða löstur, áskapnaður eða meðfædd, hvert er hámark letinnar, hvernig öðlast maður leti, er hún andstæð fullkomnunaráráttu eða getur þetta tvennt farið saman, hver er hin vísindalega skilgreining á letihaug, letibykkju og letingja?
Með fyrirfram þökk
XXX
Kæra XXX,
Árið 2000 f.Kr stóð veldi Grikkja á eynni Krít sem hæst, drykkja og frygðarlíferni einkenndi fólkið og skepnan Mínótárus (barn nauts og drottningarinnar Pasiphae) hræddi úr þeim líftóruna sem voguðu sér að koma nærri kjallaradyrum Knossos hallarinnar. Sagan hermir að eitt sinn hafi hinir dugmiklu borgarbúar ráðist að höllinni í þeim tilgangi að drepa dýrið og losna við álög Poseidsons á sér, en með örfáum höggum og bitum hafi dýrið þurrkað út nær alla Krítverja, utan hina lötu sem lágu og sóluðu sig á ströndinni og "nenntu" ekki í bardagann. Af þessu má læra að letin er í raun andstæðan við fífldirfsku og hvatvísi og má því segja að leti sé dyggð. Einnig mætti hugsa sem svo að ef allir brjálæðingar mannkynssögunnar sem orsakað hafa stríð í hinum ýmsu heimshlutum á hinum ýmsu tímum hefðu bara verið leti gæddir þá hefðu þeir frekar haldið sig heima með konunni yfir kertaljósi og barrokktónlist í stað þess að stýra blóðsúthellingum í milljónavís. Hugsaðu út í þetta.
Þá er það að skilgreina leti aðeins betur. Leti er ekki flestum í blóð borin. Sumt fólk reynir að öðlast leti alla sína ævi en tekst ekki sem skyldi, sumt fólk heldur að það sé latt þegar það er þreytt (en þar er þó stór munur á), annað fólk sættir sig við að vera ekki latt og öfundar þá sem geta legið heima og horft á sjónvarpið allan daginn, og skipt um stöðvar með geislabúnu flikki. Leti er því miður meðfædd og erfitt er að temja sér leti ef hún er ekki til staðar í genunum. Þó eru leiðir eins og að drekka sveppate með konjaksslettu í - en áhrifin eru í raun aðeins tímabundin slæving, ekki raunveruleg leti.
Hámarki letinnar hefur enginn náð enn, en grunur leikur á að Krítverjinn Gyros Apostopolis, sem er kominn í beinan karllegg frá Tobias Apostopolis, einum letingjanna á ströndinni forðum tíð, muni hreppa þann titil, en hann þykir með eindæmum latur maður. Hann er að vinna að takmarkinu, en tekst það afar hægt.
Fullkomnunarárátta fer einkar vel með leti, hún felst einkum í því að halda sig á letinnar striki og hvika aldrei yfir til annarra vega og til dæmis gerast dugsamur. Þessi orð sem þú nefnir - letihaugur, letibykkja og letingi eru orð sköpuð af ólötum mönnum sem öfundað hafa hina lötu - og má því finna afbrýðisemióþef af þeim. Líkt og að segja bjartsýnisfjandi, jákvæðnihálfviti eða hreinskilnióféti. Láttu ekki mengast af hlutdrægni hinna öfundsjúku.
Ég vona að þú kynnir þér betur leti, að þú náir að öðlast hana, en ef ekki þá er ágætlega fullnægjandi að vera einungis áhugamanneskja um leti, og ber ég því starfi vel söguna.
Dr. Curly McLaughlan