7.5.07

Það er greinilegt að það les enginn blogg nema talað sé um kynlíf og annan sora í tíma og ótíma. Ég segi því, Ellý, watch out. Mínar 5 heimsóknir á dag eiga von á fantastískri margföldun. Things will be getting dirty, ladies and gentlemen!

Í fyrsta sinn sem ég fór í heimsókn til foreldra Marcels í Caen þá talaði ég næstum enga frönsku. Þegar við höfðum setið til borðs í um fjóra tíma, troðið okkur út af appelsínuönd, crème brûlée og kaffi og konjaki sagði faðir Marcels, gamall og feitur bakari, "Jæja, börnin góð, nú er tími til kominn að fara að gera dodo. Við hjónin erum farin upp." Ég hugsaði með mér hvað þau væru nú öll frjálsleg hérna í Frakklandi, konur væru með loðna handarkrika, karlmennirnir í engum nærbuxum og umræða um kynlíf jafn eðlileg og um pólitík eða listir. Ég leit á Marcel, hann brosti bara og óskaði pabba sínum góðs gengis "Ég vona að þér takist það í nótt, pabbi minn, ég veit þú hefur átt erfitt með það undanfarið". Það er aldeilis að fólk deilir öllu með fjölskyldunni, hugsaði ég með mér, en vildi samt ekki sýna neinn tepruskap og sendi bara baráttustrauma til tengdapabba. "En krakkar mínir, viljið þið ekki líka gera dodo núna? sagði hann svo og horfði á mig "þú veist nú hvernig hann Marcel verður ef hann fær ekki skammtinn sinn". Ég brosti afar kjánalega og neyddist til að jánka því. Marcel hló og viðurkenndi það líka. Við fórum upp í gestaherbergið í halarófu, og á vélrænan hátt klæddi ég mig úr öllum fötunum og hugðist renna niður buxnaklauf kærasta míns þegar Marcel stoppaði mig - "Hvað ertu að gera, Curly?" spurði hann, "mamma og pabbi eru í næsta herbergi, ertu frá þér? Svo þurfum við líka að fá svefn, eins og pabbi sagði".
'Að gera dodo' merkir semsagt 'að sofa' á frönsku.

Ég var ekki fyrr búin að tileinka mér þetta ágætis orðasamband á hinu nýlærða máli, íslensku, (sem var nógu erfitt, "to do dodo" á ensku hljómar eins og rökleysan ein, eða eins og skatt í Ellu Fitzgerald lagi) en ég þurfti að bægja frá mér öllum konnótasjónum og hugsa "svefn", ekki "kynlíf", Curly, engar sorahugsanir.

Ég var annars að brjóta heilann...
"Að gera það" er semsagt orðasamband sem merkir að njóta maka, elskast, ríða...etc. "Það" er eitthvað sem við öll þekkjum og þarf ekkert að henda reiður á, samnefnari yfir athöfnina. "Það" er svo margt en samt svo eitt að það er í eintölu, jafnvel þótt við vitum að það séu til margar gerðir og útfærslur á "því".
Gott og vel. En hvað merkir þá "að gera hitt"? Hvað er "hitt"? Ég veit hvað "það" er, en hvað er "hitt"? Nú er ég að deyja úr forvitni, og finnst sem allt mitt líf hafi ég misst af "hinu". En hvað um það þegar fólk gerir "hitt OG þetta"? Þá er eitthvað mikið í gangi sem ég hef ekki hugmynd um. Ég sem hélt ég vissi allt.