30.11.02

Kæra dr.Curly,
Ég er með spurningu handa þér. Skapahár mín eru svo mislöng auk þess sem þau eru mismikið krulluð, er þetta afbrigðilegt?
Pubina Rasskachova


Kæra Pjúbína,
Þú gerir þér eflaust ekki grein fyrir því að dagar gamla, góða og hefðbunda krullbrúsksins eru taldir. Við lifum jú á Michael Jackson og Cher-öldinni, þar sem allt er mögulegt og ekkert er heilagt, og þykir nú frekar lummó að arka um eins og maður var skapaður. Þótt beri ekki eins mikið á tískusveiflum í kynhárabransanum og á höfuðshárabransanum, þá er engu að síður mikil gróska þar neðanjarðar. Nýjar línur, nýir litir og stílfæringar sækja í sig veðrið, og engin er "kona" með "konum" nema hún fari í sunnlenska lagningu. Vinsælasta greiðslan í sumar var hjartalaga, stutt hár og sléttað með heitu járni, en einn lokkur látinn vaxa og fléttaður saman við vír. Þetta var sérstaklega vinsælt í Eistlandi og Nýju Kaledóníu. Jólagreiðslan í ár var tilkynnt af Salon Veh og er mjög spennandi kostur fyrir konur á öllum aldri: jólatréslaga brúskur (20% afsláttur á grænum lit fyrir þær sem til eru í flipp) og skreyttur (já, eins og jólatré) með semalíusteinum og perlum. Látið ímyndunaraflið leika lausum hala! Einnig er sérstakt kynningarverð á Marilyn Manson greiðslunni fyrir fermingarstúlkur, og ekkert aukagjald er á sníphringjunum og barmatattóveringunni.

Þér, Pjúbína, ráðlegg ég því að kynna þér möguleikana í kynhárabransanum og sætta þig ekki við náttúrulegt misræmi þitt. Í gegnum aldirnar höfum við konur lært að skammast okkar fyrir þennan skringilega staðsetta hárvöxt, en nú er bara að bjóða vinkonunni upp á sárabótarhárgreiðslu og draga hana út úr þessum skömmustulega skáp sem formæðrum hennar var hent inn í forðum tíð.

Þín vinkona,
dr.Curly

28.11.02

Bréfin halda áfram að streyma inn og hér barst eitt frá góðvinkonu minni úr Sauðlauksdal:
Kæra Dr. Curly,
Ég er mikil aðdáandi. Ég hef lengi velt þesu fyrir mig en aldrei þorað að spirja. Mér finst eins og sólin sníst í kringum sjálvið mitt en samt þori ég aldrei að leita svar. Fólkið í húsunum í kringum horfir á mig, en ég veit að það er bara vegna
þess að það getur ekki horst í augu við myrkrið sem hylur hræðileg leindarmál sem búa í sálarkimunum þeira.
En semsagt, spurningin mín til þinnar er þessi: Erum við öll geðveik?

Með fyrirfram þökkum og sólarkveðjum,
Sóley Líf Ísaldardóttir


Kæra Sóley,
Ef mig minnir rétt þá átti ítalska skáldið Dante Alighieri við svipað vandamál að stríða. Þegar hann var ungur drengur, um 1275, þá átti hann erfitt með sjálfsmynd sína og fannst sem sólin elti hann hvarvetna. (sem þótti ekkert órökrétt á þessum tíma, jarðmiðjukenningin var ekki afsönnuð fyrr en á 15.öld af Kópernikusi eins og flestir vita). En Dante brá á það ráð að loka sig inni við kertaljós, skar á allt samband við sólu og tók til við skriftir. Megum við bókmenntaunnendur í raun þakka því hve Dante var fælinn og ofsóknarbrjálaður. Ég ráðlegg þér því annað hvort að fara að ráði Dantes – og þá mun sólin ekki angra þig meir, eða sjá hana sem góðan vin sem er þér fylgjandi í leik og starfi.

“Fólkið í húsunum” . Þú meinar auðvitað dáið fólk er það ekki? Og með húsum, þá áttu við líkama hinna lifandi, er ekki svo? Ég sé það svo sannarlega að þú ert næm manneskja, ef ekki bara þrælskyggn. Þú skynjar að í hverjum mannsanda búa milljón aðrir mannsandar, og það sem gerir okkur, hina lifandi, svo flókin er vegna þess hve ofin við erum af lífsmynstri hinna liðnu. En láttu ekki myrkur þeirra og máski hræðileg vandamál íþyngja þér. Hæfilega mikið af vondu getur leitt af sér gott, vittu til.

Erum við öll geðveik?
Já, Sóley mín, við erum það. Hötum þá sem okkur ber að elska, eltumst við óraunhæfa drauma; skiljum engan og ekkert – og hvað þá síst okkur sjálf; erum....en erum ekki það sem við erum og látum vera ; og getum ekki viðurkennt vankanta okkar og veiklyndi. Við erum veikgeðja sálir í riddarabrynju. Veik-geðja. Geð-veik.

En, með því er vel hægt að lifa, og bið ég þig því vel að gjöra.
Dr.Curly McLaughlan, vinur heimsins.

p.s. Íslensk Stafsetning eftir Björn Halldórsson er vel þess virði að kaupa, fæst hún notuð á spottprís.

25.11.02

Kæra doctor Curly!
Í beinu framhaldi af bréfi góðrar vinkonu minnar, sem og fyrrum
samstarfskonu, langar mig að spyrja þig; hver/hvað er Pétur?
Oft hef ég heyrt talað um þá "Pétur og Pál" (gott ef það var ekki
þáttur hjá okkur á skjánum...?) en aldrei áttað mig á því hvað/hverjir þeir eru. Og ef Páll er Guðrún - er Pétur þá Héðinn?
Þakka þér fyrir góð og skýr svör doctor Curly McLaughlan.
Þinn leynilegi aðdáandi,
Árni Þór Vigfússon.


Kæri Árni (og takk fyrir öll innilegu sms-in, þau ylja manni um nóvemberhjartaræturnar :)
Það er von þú spyrjir. Þegar þátturinn Pétur og Páll fór fyrst í loftið velti ég því mikið fyrir mér hverjir þessir náungar væru. Ég hafði það nefnilega á tilfinningunni að þeir væru ekki allir þar sem þeir væru séðir. Eitt kvöldið laumaðist ég í stúdíóið og tók fingrafarasýni af kaffibollunum þeirra, stólunum sem þeir sátu í og fleiri nærliggjandi hlutum. Þegar sýnin voru rannsökuð komst lögreglan að því að ekki var nein fingraför að finna, heldur aðeins grængagnsæar melanínflögur. Upphófst þá mikill eltingarleikur við þá Pétur og Pál, sem lyktaði í turni Hallgrímskirkju þar sem þeir félagar voru að umbreytast aftur í grænar lirfur. Lögreglan tók þá fasta fyrir að sigla undir fölsku flaggi, m.a. fyrir skjalafals og undirheimaglæpi. En Pétur og Páll eru semsagt grænar lirfur, getnar og fæddar á plánetunni Kas og raunveruleg nöfn þeirra eru Guðrún (Páll) og Hólmfríður (Pétur). En þú ert eitthvað að misskilja með hann Héðinn. Hann er altmuligmaðurinn minn, skósveinn og kokkur, barnapía og nuddari allt í senn. Hann hefur ekkert að gera með ráðvilltu grænlirfurnar.

Ég vona að ég hafi náð að upplýsa þig örlítið um Pétur og Pál. Þetta mál er allt saman á frekar viðkvæmu stigi enn sem komið er. Lögreglan hefur lítið látið fara fyrir málinu, því sagt er að lirfurnar hafi náð tveimur lögreglumönnum í sinn innsta hring, dáleitt og þvingað til kynmaka og þykir þetta hið mesta hneyksli.

Þinn vinur,
Dr.Curly M.