3.6.07

Afsakið biðina, ég var á túr.
Í síðustu viku kvaddi ég Bandaríkin, keyrði framhjá mömmu hans Eminem í Detroit, og hélt inn í risavaxna Kanöduna. Ég byrjaði á því að villast á leið minni, gekk inn í ólæst hús og þar sat Michael Moore að snæðingi með NRA mótmælagrúppunni sinni -"See, this is what I love about this country, you can just walk in off the street and nobody will shoot you down or call the cops. Why hello there, stranger, care for some tasty and stimulating propaganda?" Ég settist hjá þeim, komst að því að þetta voru flest allt fráfluttir Flint-búar sem sest höfðu að í Kanada, tömdu sér að segja "eh" í tíma og ótíma, læstu ekki húsum, bílum né hjólum, blóðmjólkuðu heilbrigðiskerfið og sendu börnin sín óhrædd og óvarin í leikskólann. Húsráðandinn, Benjamin Bancroft, sagði að það væri skömm hvernig talað væri um Kanadabúa og minntist meðal annars á ferkantaða sýn Stones og Parkers í South Park.

Daginn eftir fórum við Michael í jarðaberjatínslu og hann fræddi mig um nýtt æði í Kanada um þessar mundir (enn eitt æðið). Þar sem Kanada er litli bróðir Bandaríkjanna í svo mörgu, minni máttar og komplexeraður, þá þarf það að finna nýjar leiðir til að skara framúr nágrannanum. Nýjasta forte Kanada er semsagt heimspekilegt hugvit, sem nú er til sölu, á almennum markaði, svörtum, og í gegnum verðbréf, hlutabréf og veðbanka. Leikskólabörn sem sýna fram á þroska og hugvit eru umsvifalaust tryggð stórfyrirtækjum, þau eru kostuð í gegnum háskóla og eru á launum allt sitt líf, löngu áður en þau fara virkilega að vinna. Börn og unglingar eru seld á mörkuðum, bæði löglegum og skattskyldum sem og svörtum, og þá fylgir í sumum tilvikum umgjörðin (þ.e. líkaminn) með gegn vægu gjaldi. Annars fær kaupandinn bara hugvitið sent reglulega í viðhengi með tölvupósti og þarf ekkert að sjá framleiðandanum farborða. Á þennan hátt getur lítils megnugt fólk á gáfnasviðinu keypt sér góðar hugmyndir, pælingar og jafnvel samvisku og tilfinningar; og þeir sem fæddust með heilabúið í lagi en fjárhaginn í ólagi geta grætt á þessari guðsgjöf sinni og selt hana öðrum. Fyrir utan kaup þessi og sölu þá er í gangi verðbréfabrask nokkurt, fólk kaupir hluta af velgengni einstaklings, hluta af hugmyndum hans. Hæstu bréfin voru Stephen J.Johnson bréfin í maímánuði í fyrra, en þau snarhröpuðu í júlí, þegar Stephen þessi, 21 árs háskólanemi, útskrifaðist úr skóla og fór á vinnumarkaðinn. Menn höfðu ekki gert ráð fyrir fylgni og venslum við nám og virkni heilasellanna fyrr en þá, og máttu þeir margir sitja eftir með sárt ennið sem fjárfest höfðu í Stephen. Fólk almennt er líka farið að skiptast á hugmyndum, bröndurum og sögum, líkt og pókemon spilum. Á skólalóðinni er vinsælast að eiga samansafn af nokkrum sæmilegum bröndurum sem hægt er að segja í hóp meðalkúltíveraðra einstaklinga og fá viðunandi brosviprur og temmileg hlátrasköll, nokkra góða punchline brandara sem hljóta feillaust góðar viðtökur og fyrirsjáanlegt "hahaha", og svo nokkra fágæta gullmolabrandara sem fá fólk til að pissa smá í brækurnar, gráta og liggja í gólfinu. Líkt og með verðbréfin er tímasetning fyrir öllu. Til dæmis seldi Didi Daybreak gamlan fjölskyldubrandara um kynsvall araba og gyðinga, sem alla tíð hafði brennimerkt hana sem rasista, rétt áður en mynd Borats var sýnd um allan heim, og tapaði hún ærlega á því. Sá sem keypti brandarann á ebay varð vinsælasti maðurinn á Eve Online þegar hann sagði hann, og hefur hróður brandarans og mannsins farið sívaxandi með árunum.

Ég velti því fyrir mér hvaða hugmyndir ég gæti hugsað mér að selja fólki. Það væri helst einhvers konar sannleikur gærdagsins, eða hugmyndir sem ég notast ekki mikið við lengur. Annað væri mér bara of kært. Í gær keypti ég á 100 dollara orðtakið "One time is not many times" af Ulriku Schmidt, sem gerði sér ekki grein fyrir heimspekilegu vægi slíks orðtaks. Hún má aldrei nota það héðanaf, eða þá vísa í mig og borga mér stefgjald.

Einnig langar mig að festa kaup á "Blindir klæða sig" Elsu Maríu Jakobsdóttur, og "What's in abend" einhvers sem ég því miður þekki ekki. Ykkur er frjálst að hafna, ég geri mér grein fyrir gildi þessara spakmæla.

Doctor Curly McLaughlin