The genesis of Curly: knowledge is capital
Ég var búin að ákveða að verða aldrei ástfangin, einsetti mér að lifa eins konar tilfinningalegum sjálfsþurftarbúskap og rækta ekki meiri ást en það hófsama dálæti sem ég hafði á sjálfri mér og nýjum viðfangsefnum mínum, Íslendingum. Skammtað og nægjusamt meinlætalífið átti vel við mig. Ég keypti mér lítinn kofa við Vindáshlíð í kjarrinu inn af Hafnarfirði og undi þar sátt við mitt, rafmagns- og vatnslaus, og gat skipulagt hjálparstarf mitt. Hvort ætli Íslendingar þyrftu að fá spurningum sínum um guðspeki svarað, eða um uppruna heimsins ("quantum fluctuation of the vacuum"), almenna siðfræði, stjarnfræði, tímaflakk eða kleinuhringi?? Í hönd fór hálfs árs rannsóknarvinna til að fanga gervallan vísdóm jarðarinnar, og skemmtilegt að segja frá því að síðustu upplýsingarnar sem ég færði inn í gagnagrunn minn eftir þessa hálfs árs skorpu voru fréttir af hinum íranska alífuglabónda Jamshid Kouros, sem smitaðist hafði af fuglaflensu, og í óráði skar af sér hausinn og lifði þannig hauslaus í ein 4 ár, og hafði konan hans aldrei verið eins ástfangin af honum.
En semsagt, daginn sem ég ákvað að að heimurinn væri tilbúinn fyrir yfirskilvitlega hjálparhönd mína grunaði mig ekki að á fjörur mínar ræki franskan bókmenntafalsara og snekkjukapíten með meiru. Útataður í krækiberjum og lúpínufræjum barði Marcel Michelin að dyrum hjá mér og sagði "Tempus fugit". Ég vissi þá þegar að ég gæti ekki án hans verið. Við fórum í skemmtisiglingu á snekkjunni hans til Spitzbergen og í steikjandi sólinni á ströndum Ný-Álasunds gleymdi ég altrúísku verkefni mínu um stundarsakir. Hann nuddaði stíf herðablöð mín og las upphátt fyrir mig lítt þekktar sonnettur Stalíns. Ég komst að því að hann væri fjarskyldur ættingi framleiðanda Michelin dekkja, og saman hlógum við kankvís að framtíðarplottum um að steypa eigendunum af stóli og byggja okkur gúmmídekkjahöll.
Eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir þá hafði Marcel Michelin einhver undarleg áhrif á mig, gildi mín og ásetning í lífinu. Þetta ástarhaldreipi fransmannsins myndi á næstu árum reynast mér bölvun og ólán ólíkt nokkru sem þið hafið vitað. Ég var strax farin að vanvirða sáttmála djöfulsins og mátti nú hafa mig alla við að bæta honum það upp. Fyrsta verkefni: stofna heimasíðu þar sem lesendur gætu fengið svör við spurningum sínum. Annað verkefni: Heimsækja drauga Skriðuklausturs og bjóða þeim starfslokasamning.
En meira af því næst.
Your's truly,
Doctor Curly Mclaughlin