29.6.07

Jæja,

Ég var byrjuð á pistli, en ég lenti óvart í ritstíflu. Ég verð í hægum mokstri á næstunni, nokkrir hafa lánað mér peysur sínar til að losa stífluna í veginum, en það er svosum ekki drullan og grjótið sem vefjast fyrir mér, heldur er ég bara ekkert mikið við stýrið. Þið munuð frekar finna mig úti í móa að tína geldingarhnappa og horfa á hrossaflugur eðla sig. Lykillinn er samt í, þið getið prófað að losa stífluna fyrir mig.

Doctor Curly.

3.6.07

Afsakið biðina, ég var á túr.
Í síðustu viku kvaddi ég Bandaríkin, keyrði framhjá mömmu hans Eminem í Detroit, og hélt inn í risavaxna Kanöduna. Ég byrjaði á því að villast á leið minni, gekk inn í ólæst hús og þar sat Michael Moore að snæðingi með NRA mótmælagrúppunni sinni -"See, this is what I love about this country, you can just walk in off the street and nobody will shoot you down or call the cops. Why hello there, stranger, care for some tasty and stimulating propaganda?" Ég settist hjá þeim, komst að því að þetta voru flest allt fráfluttir Flint-búar sem sest höfðu að í Kanada, tömdu sér að segja "eh" í tíma og ótíma, læstu ekki húsum, bílum né hjólum, blóðmjólkuðu heilbrigðiskerfið og sendu börnin sín óhrædd og óvarin í leikskólann. Húsráðandinn, Benjamin Bancroft, sagði að það væri skömm hvernig talað væri um Kanadabúa og minntist meðal annars á ferkantaða sýn Stones og Parkers í South Park.

Daginn eftir fórum við Michael í jarðaberjatínslu og hann fræddi mig um nýtt æði í Kanada um þessar mundir (enn eitt æðið). Þar sem Kanada er litli bróðir Bandaríkjanna í svo mörgu, minni máttar og komplexeraður, þá þarf það að finna nýjar leiðir til að skara framúr nágrannanum. Nýjasta forte Kanada er semsagt heimspekilegt hugvit, sem nú er til sölu, á almennum markaði, svörtum, og í gegnum verðbréf, hlutabréf og veðbanka. Leikskólabörn sem sýna fram á þroska og hugvit eru umsvifalaust tryggð stórfyrirtækjum, þau eru kostuð í gegnum háskóla og eru á launum allt sitt líf, löngu áður en þau fara virkilega að vinna. Börn og unglingar eru seld á mörkuðum, bæði löglegum og skattskyldum sem og svörtum, og þá fylgir í sumum tilvikum umgjörðin (þ.e. líkaminn) með gegn vægu gjaldi. Annars fær kaupandinn bara hugvitið sent reglulega í viðhengi með tölvupósti og þarf ekkert að sjá framleiðandanum farborða. Á þennan hátt getur lítils megnugt fólk á gáfnasviðinu keypt sér góðar hugmyndir, pælingar og jafnvel samvisku og tilfinningar; og þeir sem fæddust með heilabúið í lagi en fjárhaginn í ólagi geta grætt á þessari guðsgjöf sinni og selt hana öðrum. Fyrir utan kaup þessi og sölu þá er í gangi verðbréfabrask nokkurt, fólk kaupir hluta af velgengni einstaklings, hluta af hugmyndum hans. Hæstu bréfin voru Stephen J.Johnson bréfin í maímánuði í fyrra, en þau snarhröpuðu í júlí, þegar Stephen þessi, 21 árs háskólanemi, útskrifaðist úr skóla og fór á vinnumarkaðinn. Menn höfðu ekki gert ráð fyrir fylgni og venslum við nám og virkni heilasellanna fyrr en þá, og máttu þeir margir sitja eftir með sárt ennið sem fjárfest höfðu í Stephen. Fólk almennt er líka farið að skiptast á hugmyndum, bröndurum og sögum, líkt og pókemon spilum. Á skólalóðinni er vinsælast að eiga samansafn af nokkrum sæmilegum bröndurum sem hægt er að segja í hóp meðalkúltíveraðra einstaklinga og fá viðunandi brosviprur og temmileg hlátrasköll, nokkra góða punchline brandara sem hljóta feillaust góðar viðtökur og fyrirsjáanlegt "hahaha", og svo nokkra fágæta gullmolabrandara sem fá fólk til að pissa smá í brækurnar, gráta og liggja í gólfinu. Líkt og með verðbréfin er tímasetning fyrir öllu. Til dæmis seldi Didi Daybreak gamlan fjölskyldubrandara um kynsvall araba og gyðinga, sem alla tíð hafði brennimerkt hana sem rasista, rétt áður en mynd Borats var sýnd um allan heim, og tapaði hún ærlega á því. Sá sem keypti brandarann á ebay varð vinsælasti maðurinn á Eve Online þegar hann sagði hann, og hefur hróður brandarans og mannsins farið sívaxandi með árunum.

Ég velti því fyrir mér hvaða hugmyndir ég gæti hugsað mér að selja fólki. Það væri helst einhvers konar sannleikur gærdagsins, eða hugmyndir sem ég notast ekki mikið við lengur. Annað væri mér bara of kært. Í gær keypti ég á 100 dollara orðtakið "One time is not many times" af Ulriku Schmidt, sem gerði sér ekki grein fyrir heimspekilegu vægi slíks orðtaks. Hún má aldrei nota það héðanaf, eða þá vísa í mig og borga mér stefgjald.

Einnig langar mig að festa kaup á "Blindir klæða sig" Elsu Maríu Jakobsdóttur, og "What's in abend" einhvers sem ég því miður þekki ekki. Ykkur er frjálst að hafna, ég geri mér grein fyrir gildi þessara spakmæla.

Doctor Curly McLaughlin

13.5.07

Nýjasta æðið grípur um sig meðal fólks í Bandaríkjunum og Japan.
Persónuleg nánd í kynlífi heyrir sögunni til. Strokur af alúð og stunur af viðurkenningu og tillitssemi eru gamalt og úrelt fyrirbæri. Loksins hefur fólk fengist til að viðurkenna að kynlíf er bara gagnkvæm sjálfsfróun og þarf ekki að þykjast lengur.
Hjónakornin Jesse og Lisa kynntu mig fyrir þessu nýja æði þegar ég var hjá þeim í mat um daginn. Alla tíð hafði Jesse átt erfitt uppdráttar í þessum málum, því að eðlisfari var hann kaldlyndur maður, með athyglisbrest og félagsfælni, en því miður afar graður maður sem þreifst á líkamlegri örvun. Þetta varð til þess að hann stundaði mest sjálfsfróun og/eða kynlíf með gleðikonum, sem þurfti ekki að hafa ofan af fyrir með brosum, kossum og koddahjali. Þetta var eilíft vandamál, þangað til hann gekk í AAA (aloof addicts anonymous). Þar kynntist hann Lisu. Saman hafa þau Lisa aukið vinsældir samtakanna á ótrúlegan hátt, þessu er jafnvel líkt við framtíðarsýn Aldous Huxley.
Nú er semsagt heitasta heitt að gera annað á meðan maður gerir það (- Þessi heimspekilega pæling er mjög svo í ætt við pælingarnar í síðustu færslu). Leitast skal við að dreifa athyglinni og vera ekki að magna upp neina gerviörvun út af faktorum eins og væntumþykju, fegurðarmati, fagurfræði aðstæðna, hugmyndafræði atburðarins, mikilvægi hans eða öðru sem gæti ruglað konkret og ásnertanlega örvun líkamans. Leitast skal við að hlusta á eitthvað, t.d. ipod, binda fyrir augun og fjarlægja allt það sem gæti haft tilfinningaleg áhrif á skynfærin. Það má borða, tala, syngja, lesa (passa verður þó að horfa eingöngu á bókina ef á að vera með augun opin en ekki bundið fyrir þau), horfa á sjónvarpið (sama á við hér) og í raun gera allt sem virðir gagnkvæmu sjálsfróunina (þ.e. hinn einstaklinginn) að vettugi.
Vinsælast hjá Jesse og Lisu er að hlusta á ipod. Þau reyndu stundum að borða eða vera í tölvunni á meðan á þessu stóð, en þá misstu þau einfaldlega áhugann - og þá er tilgangnum með þessu ekki náð. Jesse hlustar oftast á takftasta þýska tónlist á borð við Kraftwerk og Rammstein og Lisa hlustar á podkast með kjarneðlisfræðiprófessornum Walter Lewin, eða kannski lotukerfislag Tom Lehrers.

Ég er ekki frá því að þetta sé það sem koma skal. Ég skammast mín næstum fyrir allar mínar heiðarlegu tilraunir til að vera tilfinningavera í þessum bransa, þegar þetta tvennt, tilfinningar og kynlíf, á augljóslega enga samleið.

Dr.Curly McLaughlin

7.5.07

Það er greinilegt að það les enginn blogg nema talað sé um kynlíf og annan sora í tíma og ótíma. Ég segi því, Ellý, watch out. Mínar 5 heimsóknir á dag eiga von á fantastískri margföldun. Things will be getting dirty, ladies and gentlemen!

Í fyrsta sinn sem ég fór í heimsókn til foreldra Marcels í Caen þá talaði ég næstum enga frönsku. Þegar við höfðum setið til borðs í um fjóra tíma, troðið okkur út af appelsínuönd, crème brûlée og kaffi og konjaki sagði faðir Marcels, gamall og feitur bakari, "Jæja, börnin góð, nú er tími til kominn að fara að gera dodo. Við hjónin erum farin upp." Ég hugsaði með mér hvað þau væru nú öll frjálsleg hérna í Frakklandi, konur væru með loðna handarkrika, karlmennirnir í engum nærbuxum og umræða um kynlíf jafn eðlileg og um pólitík eða listir. Ég leit á Marcel, hann brosti bara og óskaði pabba sínum góðs gengis "Ég vona að þér takist það í nótt, pabbi minn, ég veit þú hefur átt erfitt með það undanfarið". Það er aldeilis að fólk deilir öllu með fjölskyldunni, hugsaði ég með mér, en vildi samt ekki sýna neinn tepruskap og sendi bara baráttustrauma til tengdapabba. "En krakkar mínir, viljið þið ekki líka gera dodo núna? sagði hann svo og horfði á mig "þú veist nú hvernig hann Marcel verður ef hann fær ekki skammtinn sinn". Ég brosti afar kjánalega og neyddist til að jánka því. Marcel hló og viðurkenndi það líka. Við fórum upp í gestaherbergið í halarófu, og á vélrænan hátt klæddi ég mig úr öllum fötunum og hugðist renna niður buxnaklauf kærasta míns þegar Marcel stoppaði mig - "Hvað ertu að gera, Curly?" spurði hann, "mamma og pabbi eru í næsta herbergi, ertu frá þér? Svo þurfum við líka að fá svefn, eins og pabbi sagði".
'Að gera dodo' merkir semsagt 'að sofa' á frönsku.

Ég var ekki fyrr búin að tileinka mér þetta ágætis orðasamband á hinu nýlærða máli, íslensku, (sem var nógu erfitt, "to do dodo" á ensku hljómar eins og rökleysan ein, eða eins og skatt í Ellu Fitzgerald lagi) en ég þurfti að bægja frá mér öllum konnótasjónum og hugsa "svefn", ekki "kynlíf", Curly, engar sorahugsanir.

Ég var annars að brjóta heilann...
"Að gera það" er semsagt orðasamband sem merkir að njóta maka, elskast, ríða...etc. "Það" er eitthvað sem við öll þekkjum og þarf ekkert að henda reiður á, samnefnari yfir athöfnina. "Það" er svo margt en samt svo eitt að það er í eintölu, jafnvel þótt við vitum að það séu til margar gerðir og útfærslur á "því".
Gott og vel. En hvað merkir þá "að gera hitt"? Hvað er "hitt"? Ég veit hvað "það" er, en hvað er "hitt"? Nú er ég að deyja úr forvitni, og finnst sem allt mitt líf hafi ég misst af "hinu". En hvað um það þegar fólk gerir "hitt OG þetta"? Þá er eitthvað mikið í gangi sem ég hef ekki hugmynd um. Ég sem hélt ég vissi allt.

3.5.07

Ég og Marcel skildum út af Pierre.

Höfuðborginni í Suður-Dakóta fylki.

Ég veðjaði við hann að hann myndi ekki geta upp á nafninu á höfuðborginni, og hann gat ekki upp á því. Hann var frekar súr því bróðir hans heitir Pierre og allt. Hann fór því frá mér í fýlu, skildi mig eftir í skítnum, á Burning Man hátíðinni.



Hér er ég í skítnum, stend fyrir ofan mannkássuna, fyrir miðri mynd, og er hvítmáluð í framan. Þetta er vinsæl hefð á hátíðinni, eins konar frjálslegur vikivaki.

Já, andlegt og vitsmunalegt ofurafl mitt hlýtur að hafa sært stolt hans. Ég segi það og skrifa það að ég skil ekki af hverju allir eru ekki snillingar. Ég veit að þá myndi þurfa að búa til nýtt orð fyrir "snillinga", en samt - af hverju geta ekki allir vitað að höfuðborg Suður Dakótu er Pierre? Fyrst ég veit það þá er það satt og rétt. Hugsa sér að sumir viti hvorki að Pierre er karlmannsnafn, að hann sé bróðir Marcels, að það sé nafn á frægum eðlisfræðingi né að það sé höfuðborg í bandarísku fylki. Kannski eru allir snillingar af og til, eins og Georg Lichtenberg sagði, en það er bara styttra á milli snilldanna hjá sumum.

25.4.07

Raunir úr verslanamiðstöð

Einu sinni kynntist ég manni sem sagðist hafa "riðið sig út úr Smáralindinni" (Ulrika, ég afsaka orðbragðið). Hann var alinn upp í Garðabænum, efst á Nónhæðinni, þar sem útsýni er yfir Kópavoginn. Sem barn skammaðist hann sín alltaf fyrir að búa í bleikri blokk, málaði herbergið sitt svart og safnaði Svarthöfðasafngripum og Guns 'N Roses plakötum. Rökréttast var, þegar hann komst að því að bókvit hans væri ekki mikið, né líkamlegt verkvitið nokkuð að ráði, að hann fengi sér vinnu í verslun, þar sem hann gæti t.d. brotið saman skyrtur með þartilgerðu spjaldi, spilað 'bubbles' þegar lítið væri að gera, og sagt með fölsku öryggi hluti á borð við "ég skal athuga inni á lager" (í búð þar sem enginn lager væri). Hann var maður í svona afslappað bullstarf þar sem hann þyrfti ekki að kunna, hugsa né læra neitt.

Hann fékk semsagt vinnu í verslun nokkurri í Smáralindinni stuttu eftir ákvörðunina, gat keyrt Honduna sína niður götuna og lagt henni á bílastæðinu - að vera hluti af stórri heild átti vel við hann. Fjöldaframleitt skyrtusniðið og daufir litirnir samræmdust líka yndislega vel jafnaðargeði hans. Í skyrtunni var hann einn af þessum mönnum sem fólki finnst gott að vera með í lyftu, sem það veit að ekki er vond lykt af, og sem það grunar að muni aldrei gera neitt [af sér] í lífinu. Hann elskaði starf sitt, og elskaði Smáralindina. Og allir elskuðu hann. Í kaffitímanum daðraði hann við stelpurnar í upplýsingaborðinu, keyrði þær um í barnakerrunum, og þegar einstaklega vel lá á honum gekk hann öfugum megin upp rúllustigana til að skemmta stelpunum. Það fór svo að hann svaf hjá einni þeirra í kaffitímanum, eða eins og hann sagði þá fengu þau sér fyrst 'whopper' og svo 'whoppaði hann hana. Eftir það tók hann Vero Moda pæjurnar, Zöru stelpurnar, hvítklæddu konuna í Cosmó, unglingsstelpuna á kassanum í Hagkaup, hnellnu konuna með skökku tennurnar í Tiger, og í raun allar konur og stúlkur sem unnu í Smáralindinni, nema stelpuna í Eymundsson, því hún var að sofa hjá Steinari Braga rithöfundi.

Ekki leið á löngu þar til komst upp um hann. Konur tala sín á milli, og var engin undantekning á því í þessu tilfelli.

Ég hitti manninn (sem ég vil ekki nefna með nafni) fyrir utan Smáralindina á sunnudegi þar sem hann grét ofan í indverska flöskubjórinn sinn með skrúftappanum - "Hann fæst bara í þessu Ríki"..... Hann sagðist sakna Smáralindarinnar óskaplega, þá sérstaklega TopShop og Zara Men, vegna þess að þær búðir eru hvergi annars staðar. Hann gæti nú yfirleitt fundið hinar búðirnar í Kringlunni eða á Laugaveginum. "Hefði ég vitað að allt þetta kynlíf, sem mér þótti á sínum tíma skemmtilegt, myndi kosta mig vinnuna og æruna, þá hefði ég aldrei gert þetta. Ég gat bara ekki gert að því hvað ég leit vel út í skyrtu, með strípur og barmmerki."


Jói Fel saknar hans samt.

Já, ég mátti til með að deila raunasögu þessa manns með ykkur, Annars bið ég að heilsa ykkur, frá San Francisco, ég leigi íbúð í Japan Town með tveimur Nýsjálendingum sem kynna sig alltaf sem Kiwi Kate og Kiwi Kyle. Ég er í erindagjörðum sem ykkur verða því miður ekki kunngerðar að svo stöddu.

Your's truly,
Doctor Curly

19.4.07

Eftir dvöl mína í Lapplandi skellti ég mér til Íslands í nokkrar vikur, fór í gufubað í Vesturbæjarlauginni og ræddi aðeins við nokkra unga menn, eflaust verðandi menntamálaráðherra og stórskáld framtíðarinnar, og ég gerði mér grein fyrir því að ég hefði alltaf haft einhvers konar heimur-versnandi-fer-fordóma fyrir ungu fólki. En eftir 10 mínútur í gufunni rann það upp fyrir mér að stóru spurningarnar myndu alltaf vera til staðar, þær birtust bara í mismunandi myndum. Við þurfum því engar áhyggjur að hafa af framtíðinni:

-Æ, mér finnst bara gúdd sjitt að vera með heila, og fokking not'ann...
- Já, þú meinar að þú sért sumsé Res Cogitans...

- Nei, ég meina, þú veist, þá veit ég að ég er ekki fokking dauður, ... æ þarna, þú veist ... að ég er til, eða eikkað...
- Já, þú ert semsagt að vitna í Cogito ergo sum...

- Nei, æi, sko, sjitt maður, samt sko ... ég bara eikkerneginn varð svona, eins og ég er...
- Já, þú ert að tala um Tabula Rasa þá, er það ekki?

Hver nennir að snobba fyrir latínunni þegar við höfum nútímaheimspekinga eins og þessa ungu menn?

Dr.Curly

15.4.07

Berkeley, CA, apríl 2007

Sumarið 2003 fór ég semsagt að hitta Marcel í lappneskum hugleiðingarbúðum, sem staðsettar voru í 2000 metra hæð, á toppi Kebnekaise fjalls nálægt Kirunaborg. Þar var boðið upp á að hugleiða í 6 tíma á dag - valin viðfangsefni- undir heiðbjörtum miðnæturhimni, í glampandi sól og stingandi frosti, á milli þess sem spilað var hackey-sack, æft fimleika, lesið Wittgenstein og rýnt í myndir eftir Dalí. Marcel hafði lesið um þessar búðir á heimasíðu aðdáenda Tom Stoppards og verksins "Jumpers" (sem fjallaði um heimspekinga sem stunduðu loftfimleika). Marcel fannst samlíkingin á líkamlegri og huglegri fimi augljós en samt svo spennandi að hann hélt samstundis á enn nyrðri slóðir en Ísland í von um að liðka sig innra sem ytra.
Þegar ég kom í búðirnar var Marcel orðinn ansi liðugur - hann gat farið villulaust með fyrsta kaflann úr Tractatus Logico-Philosophicus eftir Wittgenstein, haldið hackey-sacknum á lofti með öxlunum einum og legið allsber hreyfingarlaus í snjónum í klukkutíma.

Hér má sjá gúrúinn okkar Marcels, Mindra Sandhavaruni, leika hackey-sack á fjallinu.

Fyrsta kvöldið mitt var okkur gert að hugleiða frið í Mið-Austurlöndum. Mér leið eins og í tímaritgerð í menntaskóla og viðfangsefnið væri torrætt og óinspírerandi. Ég opnaði augun aðeins og sá að Marcel glotti sjálfsöruggur og grobbinn, enda mikill áhugamaður um oxýmoróna. Ég heyrði útundan mér að Mindra klappaði honum á kinnina og sagði "Gott Marcel, góð pæling, blæjur og blæjubílar...merkilegt". Svo fann ég að hönd hans strauk mína kinn - "Curly, þú ert ekki að hugleiða, þú ert bara að hugsa. Hugleiddu það. Og mundu "Um það sem maður getur ekki talað verður maður að þegja".

Næstu vikur varð ég þó lunknari við leikfimi hugar og líkama. Mindra kenndi mér að rýna í augu og áru fólks til að lesa hugsanir þeirra, og það var þá sem mig byrjaði að gruna að Marcel leyndi mig einhverju. Dag einn þegar við biðum í röðinni í kaffiteríuna heyrði ég hann hugsa "Ég ætla ekki að fá mér rúgbrauð í þetta sinn, heldur bagettubrauð". Sama kvöld sá ég smásögu eftir Maupassant á náttborðinu hans, og morguninn eftir vildi hann endilega njóta ásta í trúboðastellingunni - þegar hann vissi að mér hefði alltaf þótt það minna mig á strangkaþólskt uppeldi mitt. Ég ákvað að minnast ekkert á þetta við hann, ... "en inni í mér var haglél" eins og Guðrún Ómars sagði eitt sinn.

6.4.07

Tilkynning!

Curly er í páskafríi á Hawaii um þessar mundir, sendi mér heillaskeyti og harmaði það sem kom fyrir Jesú. Ég vona að allir séu búnir að frétta það. Hræðilegt alveg.

Hún mun semsagt ekkert skrifa í smá tíma, eða eins og Joni Mitchell orðaði það: "until my skin turns brown, then I'm coming home ... to California".

Hún bað mig samt um að koma því áleiðis til lesenda að á Hawaii eru skornir magavöðvar dottnir úr tísku, sem og sítt hár - bæði verður það salt, þurrt og skemmt í sólinni, og flækist fyrir þegar maður annað hvort brimbrettast eða klifrar í pálmatrjám til að ná í kókoshnetur. Hins vegar er brúnt hörund, húðflúr, freknur, væg blótsyrði, samlokufarsímar, stinnir upphandleggsvöðvar, kvartbuxur, tunguhringir, tófú og sjálfshjálparbækur allt mjög heitir hlutir á Hawaii.

Ávallt í viðbragðsstöðu,
Ulrika Schmidt
í enskunámi í Saratoga

29.3.07

Hér sit ég og skrifa á fartölvuna mína í bakgarðinum hjá Tim og Lucy McDermott, í Salt Lake City. Tim er málfræðingur og brandarakarl mikill, uppáhaldsfónemin hans eru retróflex "d" og "t" eins og í indversku og uppáhalds fallið hans er þágufall. Í dag kenndi hann mér setningu sem notar alla stafi enska stafrófsins: "the quick brown fox jumps over the lazy dog". Lucy er með legsig eftir alltof mörg maraþonhlaup um ævina, en er samt mjög hress. Þau kynntust á Íslandi þegar Tim var mormónskur trúboði og hún skiptinemi í Verzló. Kvöld eitt bankaði Tim uppá hjá fjölskyldu Lucy til að boða trú og syngja mormónalög, Lucy hreifst af gljáandi barmmerki Tims og þau felldu samstundis hugi saman. Öldungur Mountainberry og öldungur Daisywhite kærðu atvikið til kirkjunnar og var Tim rekinn úr trúboðinu. Syndgararnir flúðu þá land og komu sér fyrir í trailer park í Delaware-fylki, þar sem ég kynntist þeim einmitt. Nakin og frjáls gekk ég heim af ströndinni í Indian River Bay, þegar ég heyrði íslensku mælta með þykkum amerískum hreim: "Ekki vil eg," sagði Grímur, "gerast lendur maður, meðan faðir minn lifir, því að hann skal vera yfirmaður minn, meðan hann lifir" - þóttist ég þarna þekkja brot úr Egils Sögu. Ég kynnti mig fyrir hjónunum og sagðist einnig hafa dvalið á Íslandi. Þau útskýrðu fyrir mér að þau læsu alltaf einn kafla úr Egils sögu fyrir kvöldmat - til að halda íslenskunni við. "Tim er algjör lestrarhestur" sagði Lucy. "Laukrétt" sagði Tim.

Hér eru þau hjónin, alltaf jafn hress.

En hvers vegna er ég að segja ykkur frá þessu, þegar ég á að vera að rekja ferðasögu mína síðustu árin? Marsmánuður 2003 markar nefnilega upphaf rauna minna og vandamála og er frá litlu að segja. Marcel var kærður fyrir fölsun á nokkrum leikverka Strindbergs og gert að mæta fyrir rétt í Uppsölum. Bandaríkjaher réðst inn í Írak, sprengjur sprungu í Filippseyjum, Nikkei-hlutabréfin mín kolféllu og neonlituð föt komust í tísku. Ég lokaði mig inni í bústaðnum mínum, las Baudelaire og hlustaði á Jeff Buckley þangað til sumraði. Ég vissi að ég væri búin að vanvirða samning minn við djöfulinn, því á Íslandi var enn fólk sem þurfti á aðstoð minni að halda, til að mynda nokkrir vitleysingar sem ekki vissu að það ætti að varðveita gömul og falleg hús en ekki rífa þau niður og byggja nýtískulegar legóblokkir í staðinn. Hefði ég haft meiri sálarró og festu í lífinu hefði ég reynt að koma vitinu fyrir þá. En, ég frýjaði mig allri ábyrgð og flúði á vit ástmannsins, sem kominn var til Lapplands í hugleiðingarbúðir.

Það sumarið hitnaði ærlega í kolunum, svo mikið að öll gamalmenni Evrópu brunnu inni á meðan ungviðið beraði bossann í almenningsgosbrunnum. Var þetta úlfurinn að taka reiði sína út á mér??

21.3.07


Hér má sjá okkur Marcel á Burning Man hátíðinni í Nevada, rétt áður en við sundruðumst endanlega, sumarið 2004.

En nú aftur að ferðalagi okkar Marcels, eftir Skriðuklaustur:
"Roly poly, scrambled eggs for breakfast" söng Marcel fyrir mig og kom með morgunmat í rúmið, sem þó var ekki rúm heldur grjóthart aftursætið á jeppanum, sem staðsettur var í miðjum Vatnsdal og ekkert í kring nema endalausar þúfur og hólar. Á þessu ferðalagi var ég að kynnast bæði góðum og slæmum eiginleikum þessa hávaxna og óvenjulega Fransmanns:
Kostur: Kemur með morgunmat í rúmið.
Galli: Syngur hallærislega tónlist með falskri falsetturöddu.
Kostur: Kann að meta fyndin orð eins og "kísilgúr", "mannbroddar" og "glens" (og í raun öll orð sem byrja á "gl-").
Galli:Kann ekki að bera fram "h".
Kostur: Sýndargáfumennskan. Ef það er eitthvað sem ég kann að meta í fari fólks þá er það sjálfsbjargarviðleitni. "If you can't dazzle them with brilliance, baffle them with bullshit" sagði Donald Rumsfeld við mig þegar ég var á ráðstefnu um þjóðaröryggismál Norður-Írlands, sami maður og sagði seinna "There are known knowns. These are things we know that we know. There are known unknowns. That is to say, there are things that we know we don't know. But there are also unknown unknowns. There are things we don't know we don't know. " (þetta ættir þú, Karel, að kannast við, þú mikli amatör nautshægða)
Galli: Þrjóskur og þver, og snarlyginn. En það hefði ég nú getað sagt mér sjálf, þekkjandi falsaraferil hans.
Og svo má áfram telja.

Á meðan ég gæddi mér á gómsætum eggjunum og beikoninu fór ég yfir verkefni dagsins. Alveg síðan Vísindavefurinn hafði birt grein þess efnis að hinir margrómuðu Vatnsdalshólar væru í reynd óteljandi, líkt og eyjarnar í Breiðafirði og vötnin á Arnarvatnsheiði hafði ég fussað og rifist um það við Marcel að auðvitað væri hægt að telja þá, það hefði bara enginn nennt því. Hólarnir höfðu verið okkur nýbökuðum hjónakornunum eitt eitraðasta þrætueplið hingað til, og var því engin leið önnur en að settla þetta með talningu. Og mér tókst ætlunarverkið, hólarnir voru ekki nema 13.882, ef maður telur ekki minni háttar þúfur með, en 39.402 ef allt er meðtalið, og þá tel ég ekki geirvörturnar á brjóstunum með, sem, eins og við öll vitum, eru bara fuglakúkur.

Á leiðinni heim keyrði Marcel og leyfði mér að sofa, uppgefinni eftir talninguna. Seinna sagði hann mér að í svefni hefði vísifingur minn haldið áfram að hnykkjast og skjálfa en hann hefði ekki viljað vekja mig því þetta hefði haldið honum vakandi og flissandi við stýrið alla leiðina í gegnum Hrútafjörðinn, og þakkaði hann mér fyrir framlag mitt, þar sem ekki var hægt að reiða sig á hughrif náttúrunnar í þessum hluta landsins til að halda sér vakandi.

Ég skrifa ykkur nú, dyggu lesendur, frá Salt Lake City í Utah-fylki þar sem ég hyggst sækja nokkra fundi með mormónskum vinum mínum sem ég kynntist á kynsvalli á Red Hot Desert Mótelinu rétt utan við Carson City, en þau eru voða líbó og eru svo ofboðslega flippuð að vera ennþá með líkamshár (ég dáist að þeim fyrir að geta það, þegar allir vita að líkamsdúnn safnar bara skít og fýlu). Ég heyri bráðum í ykkur, og vinsamlegast sprengið ekki kommentakerfið, mér hefur reynst erfitt að svara þessari ofgnótt athugasemda sem mér hafa borist.

14.3.07

Af eyðimerkurástum og hálendisklaustrum

Það er merkileg tilfinning að vera stödd enn og aftur í Svartklettaeyðimörkinni í Nevada og velta mér upp úr minningum um mig og Marcel, þegar síðustu ár hafa farið í sleitulausa palimpsestíska útþurrkun og endurskrifun á ummerkjum hans í hugarfylgsnum mínum. Hvers vegna er ég hingað komin, á þennan stað sem tákngerir hnignun ástar okkar og upphaf passíunnar? Brennandi maðurinn, eyðimerkursporðdrekar, berir bossar og smjörsýra...eldfim blanda sem ég get ekki farið nánar út í að svo stöddu. Tilfinningarnar eru einfaldlega of miklar fyrir mallakút.

En aftur til Íslands. Þegar ég kom heim í kofann minn eftir Spitzbergenförina beið mín bréf með neonbleiku frímerki stimpluðu af pósthúsinu í Haight-Ashbury hverfinu í San Francisco. Bréfið reyndist vera frá Tom Wolfe nokkrum, bandarískum rithöfundi. Sagðist hann, ásamt franska spennusagnaauðkýfingnum Paul-Loup Sulitzer, vera að fylgjast með mér og gæta þess að ég efndi loforð mitt við meistarann. "Do the right stuff, good ol'boy!" var prentað á bréfsefnið neðst í bréfinu. Og við ítrekaðan lestur slóu þessi sannindi mig. Ef bara fleiri vissu þetta, hugsaði ég, ... ef bara fleiri vissu að þeir ættu að gera hið rétta í lífinu. Allir þessir villuráfandi einstaklingar sem héldu kannski að þeir ættu að gera hið ranga! Hugsa sér...

Heimasíðan doctorcurly var stofnsett þetta sama haust 2002 og jukust vinsældir hennar jafnt og þétt. Alls staðar í heiminum leitaði til mín fólk með margvísleg vandamál og ég gat með alvisku minn sefjað ótta þeirra og áhyggjur og frelsað það frá illu. En það var ekki fyrr en ég fékk bréf frá Arinbirni Chong, kínverskum aðfluttum listamanni, búsettum á fyrrum heimili Gunnars Gunnarssonar að Skriðuklaustri, að mér fannst ég virkilega gera gagn. Við Marcel leigðum okkur fjórhjóladrifinn risajeppa og fórum mjög skemmtilega leið inn í Fljótsdalinn, því við villtumst út af þjóðveginum sökum brjálaðra skúma sem dýfðu sér í áttina til okkar, og römbuðum inn á óspillt móbergsfjöll austur af Herðubreið og Jökulsá á Brú. Þótt ekki væru neinir vegir þá létum við það ekki á okkur fá, tættum bara aðeins upp þetta strjálbýla svæði sem enginn myndi hvort sem er láta sig nokkru varða, létum okkur dreyma um að byggja vatnsrennibrautagarð ofan í einu lónanna í augsýn, og keyrðum svo áfram leiðina til Skriðuklausturs.

Arinbjörn tjáði okkur að Franzisca heitin væri alltaf í bókaherberginu að minna á sig. Ég ákvað að ég skyldi leggja mig drykklanga stund og koma svo með svar. Það var ansi napurt svona að vetrarlagi svo ég bað um teppi. Arinbjörn kom að vörmu spori með hreindýrafeld og lagði ofan á mig (öll teppin voru víst í þvotti). Eftir aðeins 5 mínútna kríu reis ég upp við dogg, spurði Arinbjörn hvort hann þekkti vel til Gunnars og verka hans, sem hann sagðist ekki gera, (en hann hefði lesið töluvert eftir Selmu Lagerlöf) og þvínæst mælti ég: "Við skulum lesa alla Fjallkirkjuna í einum rikk. Franziscu finnst of mikið af útlendingum og mönnum ókunnugum verkum Gunnars hafa haft hér búsetu."

Eftir þennan tímamótaupplestur var ei framar reimt á Skriðuklaustri. Um Kjöl veit ég hins vegar ekki.

6.3.07

The genesis of Curly: knowledge is capital

Ég var búin að ákveða að verða aldrei ástfangin, einsetti mér að lifa eins konar tilfinningalegum sjálfsþurftarbúskap og rækta ekki meiri ást en það hófsama dálæti sem ég hafði á sjálfri mér og nýjum viðfangsefnum mínum, Íslendingum. Skammtað og nægjusamt meinlætalífið átti vel við mig. Ég keypti mér lítinn kofa við Vindáshlíð í kjarrinu inn af Hafnarfirði og undi þar sátt við mitt, rafmagns- og vatnslaus, og gat skipulagt hjálparstarf mitt. Hvort ætli Íslendingar þyrftu að fá spurningum sínum um guðspeki svarað, eða um uppruna heimsins ("quantum fluctuation of the vacuum"), almenna siðfræði, stjarnfræði, tímaflakk eða kleinuhringi?? Í hönd fór hálfs árs rannsóknarvinna til að fanga gervallan vísdóm jarðarinnar, og skemmtilegt að segja frá því að síðustu upplýsingarnar sem ég færði inn í gagnagrunn minn eftir þessa hálfs árs skorpu voru fréttir af hinum íranska alífuglabónda Jamshid Kouros, sem smitaðist hafði af fuglaflensu, og í óráði skar af sér hausinn og lifði þannig hauslaus í ein 4 ár, og hafði konan hans aldrei verið eins ástfangin af honum.

En semsagt, daginn sem ég ákvað að að heimurinn væri tilbúinn fyrir yfirskilvitlega hjálparhönd mína grunaði mig ekki að á fjörur mínar ræki franskan bókmenntafalsara og snekkjukapíten með meiru. Útataður í krækiberjum og lúpínufræjum barði Marcel Michelin að dyrum hjá mér og sagði "Tempus fugit". Ég vissi þá þegar að ég gæti ekki án hans verið. Við fórum í skemmtisiglingu á snekkjunni hans til Spitzbergen og í steikjandi sólinni á ströndum Ný-Álasunds gleymdi ég altrúísku verkefni mínu um stundarsakir. Hann nuddaði stíf herðablöð mín og las upphátt fyrir mig lítt þekktar sonnettur Stalíns. Ég komst að því að hann væri fjarskyldur ættingi framleiðanda Michelin dekkja, og saman hlógum við kankvís að framtíðarplottum um að steypa eigendunum af stóli og byggja okkur gúmmídekkjahöll.

Eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir þá hafði Marcel Michelin einhver undarleg áhrif á mig, gildi mín og ásetning í lífinu. Þetta ástarhaldreipi fransmannsins myndi á næstu árum reynast mér bölvun og ólán ólíkt nokkru sem þið hafið vitað. Ég var strax farin að vanvirða sáttmála djöfulsins og mátti nú hafa mig alla við að bæta honum það upp. Fyrsta verkefni: stofna heimasíðu þar sem lesendur gætu fengið svör við spurningum sínum. Annað verkefni: Heimsækja drauga Skriðuklausturs og bjóða þeim starfslokasamning.

En meira af því næst.
Your's truly,

Doctor Curly Mclaughlin

27.2.07

Lupus in fabula


Áður en ég flutti alfarið til Íslands í kjölfar fyrstu heimsóknar minnar hingað, í júnímánuði ársins 2002, hefði mig aldrei grunað að ég myndi taka slíku ástfóstri við þessa hrjóstrugu eyðimörk sem mér fannst einkenna bæði land og þjóð. Ég tók strax eftir þurru, kaldranalegu og yfirlætislegu viðmóti þessa fólks á jaðri heimskringlunnar sem fannst sem restin af henni væri mönnuð aumkunarverðum og frumstæðum þriðja heims aumingjum, sem ekki ættu allir fartölvu, ipod og fjórhjóladrifinn jeppa, og sem mest af öllu langaði til að vera Íslendingar.

Ég sagði við Ian, kanadískan strák sem ég kynntist á bráðamóttökunni á Hvolsvelli, þegar verið var að hlúa að brunasárum hans (sem hann hafði hlotið í einhvers konar mönunarleik alpha karlmanna í krítísku návígi við Strokk; og ég hafði fengið öngul í hnakkann í túristaveiðiferð):
"Þetta land er dauðadæmt. Þetta er Sódóma og Gómorra til samans, hér fyrirfinnst syndsamlegasta og spilltasta fólk jarðar, ofurselt græðgi og saurlifnaði... sem drýgt hefur hór með djöflinum og selt honum sálu sína. Virðingarverð gildi okkar hafa þau óvirt og smánað, og útþynnt barmafullan kaleika Kristsblóðs með eiturvatni!"
Ian var mjög sammála, sagði "Right on".

En þá heyrum við að hurðinni að stofu okkar er lukt upp með látum.

Það er ekki um að villast, þetta er lúpusinn mikli. Úlfurinn. Djöfullinn sjálfur.

Hann gengur hægt um stofuna, starir til skiptis á mig og Ian, brosir og berar breiðan og hvassan tanngarðinn og stynur taktvisst. Þegar hann sér að okkur er starsýnt á tennur hans, segir hann: "Ég fæddist með tennur. Mér var ætlað að bíta." Þvínæst leggur hann hönd sína á höfuð mitt. Ég hafði alltaf ímyndað mér að Djöfullinn væri með ógeðslegar beinagrindarkrumlur eins og Dauðinn í Monty Python's Meaning of Life (sem bendir með ógnarlöngum vísifingri á lifrarpateð góða), en þessi skartaði vel snyrtum og mjúkum höndum sem minntu helst á silkiofnar galdraslæður.

"Dr.Curly Mclaughlin, þú hefur gerst sek um guðlast og formælingar og ert hérmeð dæmd til að elska og þjóna hinni íslensku þjóð, vera auðmjúkur þræll hennar og láta gott af þér leiða svo megi hún af því verða betri þjóð. Ég læt þér í té íslenskukunnáttu ásamt grunnþekkingu á alþýðu-og menningarsögu Íslands. Afplánun þín hefst samstundis."

Þennan örlagaríka dag hófst ástarsamband mitt við Ísland. En svo fór allt fjandans til þegar ég elti ástina til Spitzbergen. En meira af því næst.

Your's truly,
Dr.Curly

20.2.07

Góðan dag,
Bréf þetta barst vefsíðunni frá Black Rock eyðimörkinni í Nevada, BNA:

"Sælir lesendur,
Ég geri mér grein fyrir því hversu óbærileg fjarvera mín á þessum vef hlýtur að hafa verið ykkur öllum. Ég þakka öllum þeim sem sendu bréf og gjafir á heimili mitt og fyrrverandi eiginmanns míns, og hugsa ég með harmi til þess að hafa ekki getað verið ykkur meira innan handar, endurgoldið ykkur þessa hlýju og vinsemd sem þið hafið sýnt mér, og að hafa ekki getað svarað öllum þeim fjölda tölvupósta sem hlaðist hefur upp í pósthólfinu mínu. Ég bið ykkur einfaldlega að hafa skilning fyrir því að yfirstaðið tímabil í lífi mínu var erfitt og ófyrirsjáanlegt og má ég þakka fyrir að vera enn á lífi. Ég mun rekja sögu mína fyrir ykkur, í smáatriðum, í góðu tómi, og ef ég get á einhvern hátt bætt ykkur upp þennan glataða tíma og veitt ykkur innblástur og von, þá er það með sögunni af lífshremmingum mínum síðustu þrjú árin.

Your's truly,
Dr.Curly"

Dr. Curly McLaughlin er semsagt vöknuð til lífsins á ný og tilbúin að líta um öxl með sjónauka og bros á vör. Marcel Michelin er ekki lengur hluti af hennar lífi, og biður hún því lesendur að minnast ekki á hann, að skrifa honum ekki bréf og gleyma öllu því sem hún sagði um eldheita, ósigrandi og eilífa ást, því það er allt saman kjaftæði.

Ulrika Schmidt, umboðsmaður dr. Curly McLaughlin á Íslandi.

3.6.03

Kæra doctrína,

Ég hef veitt því athygli að fólk frá ýmsum þjóðum fylgist með síðunni þinni og þarfnast hjálpar þinnar.
Mér leikur svolítil forvitni á að vita hvort það skrifi þér á sínu tungumáli eða hvort það skrifi þér á íslensku.

17.12.02

Og samhengi stöðugleikans og misræmi viðhróflunarhræðslugagnsæjunnar heldur áfram. Karel svara Basilicu fullum hálsi.

Einhver kvensnift að nafni Basilica Spittoli leyfir sér að haldi því fram að ég geti ekki horfst í augu við eigin fæðingu og talar um kosmískt samhengi stöðugleikans eins og hún hafi sannanir fyrir eigin meðvitund. Ég vil upplýsa þessa ólánskonu um það að eini stöðugleikinn í tilvist okkar er einmitt blekkingin sjálf, eða "an opaque oasis in a panoramic desert of transparency", eins og Hallowell orðaði það svo skemmtilega í verki sínu "Visions of Blindness." Basilica þessi gerir sig þannig seka um "delirium discrepante" eða misóra og gerði betur í að gefa sig að hugarklóri sem hæfir vitsmunum hennar. Gleymum ekki hinu fornkveðna: "Gljúpur er sá sem görnum skikar."
Kveðja,
Karel Kierkagaard

16.12.02

ath. Dr.Curly bryddar upp á nýjungum líkt og hver annar, og í dag spurði hún gangandi vegfarendur í Fischersundi álits á svörum sem hún hugðist gefa næsta lesanda sínum. Að neðan birtist því svar dr.Curly með hjálp nokkurra vel valinna röltara.
M.Michelin

Halló,
Ég var að velta því fyrir mér hvort að þú gætir hjálpað mér. Ég hef reynt svo margt, talað við svo marga, prófað að gera ekki neitt og enn frekar, allt of mikið, en enn er eins og ekkert komi út úr neinu. Ég á fyrst og fremst erfitt með að átta mig á hvað það er sem helst ber að bæta og hvernig, það er eins og það flæði í gegnum mig einhver ósköp, óskapnaður e.t.v. Ég veit ekki hvar skal byrja eða hvar þetta mun taka enda. Ég er orðin úrræðalaus og leita því til þín, Dr. Curly. Þú ert mín síðasta von, annað get ég ekki sagt.
Takk fyrir.
Ein í ógjörningi.


Kæra mín,
Þú leitar úrræða en veist í raun ekki hvort úrræðin geti ráðið bót á vanda þínum, því þú kannt ekki einu sinni að bera kennsl á vandann. Þetta er flókin staða, minnir mig á málsháttinn "Betur lyktar skítur en grunur um skít", og því skulum við nú leita uppi skítinn. Þér finnst sem flæði í gegnum þig einhver óskiljanlegur óskapnaður - þetta klingir strax ákveðnum bjöllum í minni spiladós. Þú ert einfaldlega rög við að verja þig, halda fram sjálfstæðum skoðunum og lætur því alla aðra með allt þeirra hafurtask ganga yfir þig. Þú ert eflaust girnilegt skotmark í augum hinna yfirhöfnu "skápaveimiltíta". Ég ráðlegg þér því að lykta vel af skítnum, nudda andlitinu í hann og hætta að taka við þessu óskapnaðarflæði. Settu lokurnar í gang, og speglaðu óþverranum aftur til sendandans. Til þess að byrja með skaltu ganga með þykk eyrnaskjól eða jafnvel iðnaðarmanna-heyrnarskjól og þá venstu tilfinningunni að vera einungis "þjáð" af eigin hugarórum. Ef þér líkar þessi bílstjóratilfinning, þá skaltu taka dæmið enn lengra, fjarlægja skjólin því þú þarft ekki lengur á þeim að halda, þefa uppi þann er orsakaði hvað mest óskapnaðarflæðið, gefa honum færi á að endurtaka leikinn en koma honum svo á óvart með........
a) hafnaboltakylfubarningi beint á hausinn 21%
b) því að láta hann setjast á prumpublöðru og hlæja svo að honum 33%
c) andfýlukossi (hvítlaukur, kæfa og túnfiskur tilvalinn forleikur) 22%
d) veglega útlítandi jólapakka sem í er nýlagaður og heitur hundakúkur 24%
Þvínæst skaltu kríta langa línu eftir götunni sem þú býrð í, stilla einhverju hnossgæti á enda línunnar og byrja gönguna með hnossgætið að takmarki. Svona geturðu litið á lífið, elskan mín. Svona er lífið. Og þú skalt ganga röskt og rólega í gegnum það og finna hnossgætið veltast um í huganum á þér.

Þín einlæglega, dr. Curly Mc.

10.12.02

Kæri doktor,
Ég hef ekki skrifað þér áður en vona að þú getir leyst úr vanda mínum. Málið er að móðir mín, sem varð 72 ára fyrr á þessu ári, er farin að hegða sér vægast sagt undarlega.
Hún er fyrrverandi opinber starfsmaður og hefur alla tíð verið talin afar háttvís og pen kona (þó hún hafi reyndar alltaf verið dálítið góð með sig).

Upp á síðkastið hefur þetta breyst. Eftir að hún settist í helgan stein fór hún nefnilega að drekka ótæpilega - hún hefur alltaf verið mikið fyrir sopann, en aldrei sem nú. Hún ferðast mikið og heldur fyrirlestra út um allan heim þrátt fyrir að vera komin á eftirlaun - þessar ferðir hennar hafa síðasta árið snúist að mestu upp í svall og fyllerí þar sem hún vakir allar nætur og eltist við unga stráka (og stelpur) á klúbbum og diskótekum og endar yfirleitt á að draga eitt eða fleiri útúrdópuð ungmenni heim á hótelherbergi, þar sem hún svo kemur fram vilja sínum og svalar fýsnum sínum fram undir morgun.
Skiljanlega er þetta hátterni farið að valda mér miklum áhyggjum. Þetta kemur sér líka illa fyrir hana þar sem hún er oftast nær annað hvort ennþá drukkin eða skelþunn meðan hún heldur fyrirlestrana.

Ég þori ekkert að segja við hana lengur því hún er afar skapstór og verður alveg dýrvitlaus ef ég reyni að tala við hana um þetta. - í raun hefur hefur hún orðið erfiðari með hverju árinu frá því hún lét af störfum sem forseti árið 1996. Hvað á ég að gera?
með fyrirfram þökk,
Ein í klípu.


-----------------
Kæra "Í klípu",

Sá tími kemur ævinlega að eikin sem kastaði af sér litlu og óþroskuðu epli í den skuli nú sjálf þurfa stuðning við stofn sinn og fellur það í verkahring eplisins að bera þungann af henni. Þetta er skuggaleg áminning um að tíminn líði hratt. En að eplið þurfi að kljást við ormétna fortíð eikarinnar, þá er nú nóg komið af því góða. Ég nota þessa myndhverfingu eingöngu vegna þess að rétt í þessu er ég að smjatta á gómsætu Granny Smith epli og skelli mér á hné því allt er í heiminum symbolískt.

Jæja jæja, mín kæra, ég ráðlegg þér að fara hægt að þessu, reyna að komast að rót vandamálsins, vendipunktinum ef til er. Getur verið að móðir þín sé með þessu að gefa skít í núverandi forseta og ríkisstjórn með því að leiða anarkista áfram í saurlifnaði sem hún hótar að ágerist og endi í borgarastyrjöld verði ekki ónefndum núverandi forseta steypt af stóli?? Og að öll starfsemi þessara menningar- og tungumálanefndar hennar sé ein allsherjar dula sem hylur leynimakkið hennar? Ég hef auðvitað engar beinharðar sannanir fyrir þessu, en ég verð að segja að allt bendir til þessa. Þú veist að öllum líkindum hverjir sitja í fagráði í tungumálasjóðsnefndinni? Nú, Gauti Kristmannsson, sem er nýsloppinn af Hrauninu fyrir tryggingavíxlamisnotun; Margrét Jónsdóttir (Magga mannæta betur þekkt) og Matthew Whelpton, óstundvísasti útlendingur á landinu. Mér þykja flestar ár renna til sama sjávar hérna, mín kæra, og mamma þín er sjávargyðjan í þeim sæ.
Þú getur því reynt að komast að því hvort þessi sé raunin, fá móður þína ofan af mögulegum hermdarverkum, fengið hana til að svala fýsn sinni á heimasíðum um skemmdarlosta og trampþrá og varpa bara öndinni léttar ef hún er aðeins brókarsjúkur alkóhólisti. Smá svall er nú bara uppbyggilegt.

Ég óska þér, eplið mitt, alls hins besta og vona að ég hafi hjálpað til.
Dr.Curly McLaughlan

4.12.02

Mér hefur borist athugasemd frá frú Basilicu Spittoli frá Verónaborg. Hún hefur greinilega fylgst með bréfum lesenda til mín, og vill eindregið koma á framfæri skilaboðum til Karels Kierkegaard, sem sendi mér fyrispurn þann 14. nóvember. Það gleður mig að sjá samstöðuna milli ykkar lesenda, að rétta fram hjálparhönd þegar hönd nágrannans er veikburða. Vel gert.
En, hér er athugasemdin:

Kierkegaard og stöðugleikinn í kosmísku samhengi
Ég get ekki á mér setið. Verð að kommentera á þessar pælingar ykkar um frumkvæði og stöðugleika. Ykkur hefur alveg yfirsést eitt. Það er kosmískt samhengi stöðugleikans. Stöðugleiki er ekki til í kosmískum raunveruleika: væri hann það, hefðum við líkast til ekki getu til þess að skilgreina eðaskilja hann vitsmunalega. Hvers vegna? Einfaldlega vegna þess að hann breyttist í andhverfu sína við að eitt að vera til. Ástandið sem Kierkegaard lýsir; stöðugt ástand og heft frumkvæði, er blekking. Í raun er hér á ferðinni vandamál af allt öðrum toga: Þú, herra Kierkegaard, viðurkennir ekki þína eigin tilvist. Þú getur ekki horfst í augu við eigin
fæðingu, þar af leiðir að þú ert áhorfandi á þínu eigin lífi. Finnst þú eins og þú orðaðir það vera eigin spegilmynd. Á góðri latínu er þetta
kallað "Existarium Deniale". Ráð mitt er dáleiðsla. Farðu og vertu viðstaddur eigin fæðingu. "Vere e credere" ( Seeing is believing).

Basilica Spittoli

30.11.02

Kæra dr.Curly,
Ég er með spurningu handa þér. Skapahár mín eru svo mislöng auk þess sem þau eru mismikið krulluð, er þetta afbrigðilegt?
Pubina Rasskachova


Kæra Pjúbína,
Þú gerir þér eflaust ekki grein fyrir því að dagar gamla, góða og hefðbunda krullbrúsksins eru taldir. Við lifum jú á Michael Jackson og Cher-öldinni, þar sem allt er mögulegt og ekkert er heilagt, og þykir nú frekar lummó að arka um eins og maður var skapaður. Þótt beri ekki eins mikið á tískusveiflum í kynhárabransanum og á höfuðshárabransanum, þá er engu að síður mikil gróska þar neðanjarðar. Nýjar línur, nýir litir og stílfæringar sækja í sig veðrið, og engin er "kona" með "konum" nema hún fari í sunnlenska lagningu. Vinsælasta greiðslan í sumar var hjartalaga, stutt hár og sléttað með heitu járni, en einn lokkur látinn vaxa og fléttaður saman við vír. Þetta var sérstaklega vinsælt í Eistlandi og Nýju Kaledóníu. Jólagreiðslan í ár var tilkynnt af Salon Veh og er mjög spennandi kostur fyrir konur á öllum aldri: jólatréslaga brúskur (20% afsláttur á grænum lit fyrir þær sem til eru í flipp) og skreyttur (já, eins og jólatré) með semalíusteinum og perlum. Látið ímyndunaraflið leika lausum hala! Einnig er sérstakt kynningarverð á Marilyn Manson greiðslunni fyrir fermingarstúlkur, og ekkert aukagjald er á sníphringjunum og barmatattóveringunni.

Þér, Pjúbína, ráðlegg ég því að kynna þér möguleikana í kynhárabransanum og sætta þig ekki við náttúrulegt misræmi þitt. Í gegnum aldirnar höfum við konur lært að skammast okkar fyrir þennan skringilega staðsetta hárvöxt, en nú er bara að bjóða vinkonunni upp á sárabótarhárgreiðslu og draga hana út úr þessum skömmustulega skáp sem formæðrum hennar var hent inn í forðum tíð.

Þín vinkona,
dr.Curly

28.11.02

Bréfin halda áfram að streyma inn og hér barst eitt frá góðvinkonu minni úr Sauðlauksdal:
Kæra Dr. Curly,
Ég er mikil aðdáandi. Ég hef lengi velt þesu fyrir mig en aldrei þorað að spirja. Mér finst eins og sólin sníst í kringum sjálvið mitt en samt þori ég aldrei að leita svar. Fólkið í húsunum í kringum horfir á mig, en ég veit að það er bara vegna
þess að það getur ekki horst í augu við myrkrið sem hylur hræðileg leindarmál sem búa í sálarkimunum þeira.
En semsagt, spurningin mín til þinnar er þessi: Erum við öll geðveik?

Með fyrirfram þökkum og sólarkveðjum,
Sóley Líf Ísaldardóttir


Kæra Sóley,
Ef mig minnir rétt þá átti ítalska skáldið Dante Alighieri við svipað vandamál að stríða. Þegar hann var ungur drengur, um 1275, þá átti hann erfitt með sjálfsmynd sína og fannst sem sólin elti hann hvarvetna. (sem þótti ekkert órökrétt á þessum tíma, jarðmiðjukenningin var ekki afsönnuð fyrr en á 15.öld af Kópernikusi eins og flestir vita). En Dante brá á það ráð að loka sig inni við kertaljós, skar á allt samband við sólu og tók til við skriftir. Megum við bókmenntaunnendur í raun þakka því hve Dante var fælinn og ofsóknarbrjálaður. Ég ráðlegg þér því annað hvort að fara að ráði Dantes – og þá mun sólin ekki angra þig meir, eða sjá hana sem góðan vin sem er þér fylgjandi í leik og starfi.

“Fólkið í húsunum” . Þú meinar auðvitað dáið fólk er það ekki? Og með húsum, þá áttu við líkama hinna lifandi, er ekki svo? Ég sé það svo sannarlega að þú ert næm manneskja, ef ekki bara þrælskyggn. Þú skynjar að í hverjum mannsanda búa milljón aðrir mannsandar, og það sem gerir okkur, hina lifandi, svo flókin er vegna þess hve ofin við erum af lífsmynstri hinna liðnu. En láttu ekki myrkur þeirra og máski hræðileg vandamál íþyngja þér. Hæfilega mikið af vondu getur leitt af sér gott, vittu til.

Erum við öll geðveik?
Já, Sóley mín, við erum það. Hötum þá sem okkur ber að elska, eltumst við óraunhæfa drauma; skiljum engan og ekkert – og hvað þá síst okkur sjálf; erum....en erum ekki það sem við erum og látum vera ; og getum ekki viðurkennt vankanta okkar og veiklyndi. Við erum veikgeðja sálir í riddarabrynju. Veik-geðja. Geð-veik.

En, með því er vel hægt að lifa, og bið ég þig því vel að gjöra.
Dr.Curly McLaughlan, vinur heimsins.

p.s. Íslensk Stafsetning eftir Björn Halldórsson er vel þess virði að kaupa, fæst hún notuð á spottprís.

25.11.02

Kæra doctor Curly!
Í beinu framhaldi af bréfi góðrar vinkonu minnar, sem og fyrrum
samstarfskonu, langar mig að spyrja þig; hver/hvað er Pétur?
Oft hef ég heyrt talað um þá "Pétur og Pál" (gott ef það var ekki
þáttur hjá okkur á skjánum...?) en aldrei áttað mig á því hvað/hverjir þeir eru. Og ef Páll er Guðrún - er Pétur þá Héðinn?
Þakka þér fyrir góð og skýr svör doctor Curly McLaughlan.
Þinn leynilegi aðdáandi,
Árni Þór Vigfússon.


Kæri Árni (og takk fyrir öll innilegu sms-in, þau ylja manni um nóvemberhjartaræturnar :)
Það er von þú spyrjir. Þegar þátturinn Pétur og Páll fór fyrst í loftið velti ég því mikið fyrir mér hverjir þessir náungar væru. Ég hafði það nefnilega á tilfinningunni að þeir væru ekki allir þar sem þeir væru séðir. Eitt kvöldið laumaðist ég í stúdíóið og tók fingrafarasýni af kaffibollunum þeirra, stólunum sem þeir sátu í og fleiri nærliggjandi hlutum. Þegar sýnin voru rannsökuð komst lögreglan að því að ekki var nein fingraför að finna, heldur aðeins grængagnsæar melanínflögur. Upphófst þá mikill eltingarleikur við þá Pétur og Pál, sem lyktaði í turni Hallgrímskirkju þar sem þeir félagar voru að umbreytast aftur í grænar lirfur. Lögreglan tók þá fasta fyrir að sigla undir fölsku flaggi, m.a. fyrir skjalafals og undirheimaglæpi. En Pétur og Páll eru semsagt grænar lirfur, getnar og fæddar á plánetunni Kas og raunveruleg nöfn þeirra eru Guðrún (Páll) og Hólmfríður (Pétur). En þú ert eitthvað að misskilja með hann Héðinn. Hann er altmuligmaðurinn minn, skósveinn og kokkur, barnapía og nuddari allt í senn. Hann hefur ekkert að gera með ráðvilltu grænlirfurnar.

Ég vona að ég hafi náð að upplýsa þig örlítið um Pétur og Pál. Þetta mál er allt saman á frekar viðkvæmu stigi enn sem komið er. Lögreglan hefur lítið látið fara fyrir málinu, því sagt er að lirfurnar hafi náð tveimur lögreglumönnum í sinn innsta hring, dáleitt og þvingað til kynmaka og þykir þetta hið mesta hneyksli.

Þinn vinur,
Dr.Curly M.

21.11.02

Kæra dr.Curly,
Mig hefur lengi langað til að vita svarið við þessu: Hver/hvað er Páll?
Þín að eilífu,
Dóra Takefusa


Kæra Dóra,
Það kom mér ekki á óvart að þú skyldir spyrja þessarar spurningar. Þú hefur einfaldlega bæst í hóp þeirra 14 sem þegar hafa spurt mig þessa. Þar sem Páll er mikið milli tannanna á fólki þá skal ég útskýra svo þú getir gerst gjaldgeng í Skjás Eins hanastélsteitum og öðrum VIP samkomum. Svarið kemur þér og ykkur hinum eflaust á óvart. Páll er Guðrún. Og Guðrún er ekki kona, heldur lítil, ljót lirfa.

Virðingarfyllst,
dr.Curly.

15.11.02

Sæl Curly, ég kýs að láta nafn míns ógetið. Ég hef lengi verið að velta fyrir mér þessu með letina. Er leti dyggð eða löstur, áskapnaður eða meðfædd, hvert er hámark letinnar, hvernig öðlast maður leti, er hún andstæð fullkomnunaráráttu eða getur þetta tvennt farið saman, hver er hin vísindalega skilgreining á letihaug, letibykkju og letingja?
Með fyrirfram þökk
XXX


Kæra XXX,
Árið 2000 f.Kr stóð veldi Grikkja á eynni Krít sem hæst, drykkja og frygðarlíferni einkenndi fólkið og skepnan Mínótárus (barn nauts og drottningarinnar Pasiphae) hræddi úr þeim líftóruna sem voguðu sér að koma nærri kjallaradyrum Knossos hallarinnar. Sagan hermir að eitt sinn hafi hinir dugmiklu borgarbúar ráðist að höllinni í þeim tilgangi að drepa dýrið og losna við álög Poseidsons á sér, en með örfáum höggum og bitum hafi dýrið þurrkað út nær alla Krítverja, utan hina lötu sem lágu og sóluðu sig á ströndinni og "nenntu" ekki í bardagann. Af þessu má læra að letin er í raun andstæðan við fífldirfsku og hvatvísi og má því segja að leti sé dyggð. Einnig mætti hugsa sem svo að ef allir brjálæðingar mannkynssögunnar sem orsakað hafa stríð í hinum ýmsu heimshlutum á hinum ýmsu tímum hefðu bara verið leti gæddir þá hefðu þeir frekar haldið sig heima með konunni yfir kertaljósi og barrokktónlist í stað þess að stýra blóðsúthellingum í milljónavís. Hugsaðu út í þetta.

Þá er það að skilgreina leti aðeins betur. Leti er ekki flestum í blóð borin. Sumt fólk reynir að öðlast leti alla sína ævi en tekst ekki sem skyldi, sumt fólk heldur að það sé latt þegar það er þreytt (en þar er þó stór munur á), annað fólk sættir sig við að vera ekki latt og öfundar þá sem geta legið heima og horft á sjónvarpið allan daginn, og skipt um stöðvar með geislabúnu flikki. Leti er því miður meðfædd og erfitt er að temja sér leti ef hún er ekki til staðar í genunum. Þó eru leiðir eins og að drekka sveppate með konjaksslettu í - en áhrifin eru í raun aðeins tímabundin slæving, ekki raunveruleg leti.
Hámarki letinnar hefur enginn náð enn, en grunur leikur á að Krítverjinn Gyros Apostopolis, sem er kominn í beinan karllegg frá Tobias Apostopolis, einum letingjanna á ströndinni forðum tíð, muni hreppa þann titil, en hann þykir með eindæmum latur maður. Hann er að vinna að takmarkinu, en tekst það afar hægt.

Fullkomnunarárátta fer einkar vel með leti, hún felst einkum í því að halda sig á letinnar striki og hvika aldrei yfir til annarra vega og til dæmis gerast dugsamur. Þessi orð sem þú nefnir - letihaugur, letibykkja og letingi eru orð sköpuð af ólötum mönnum sem öfundað hafa hina lötu - og má því finna afbrýðisemióþef af þeim. Líkt og að segja bjartsýnisfjandi, jákvæðnihálfviti eða hreinskilnióféti. Láttu ekki mengast af hlutdrægni hinna öfundsjúku.

Ég vona að þú kynnir þér betur leti, að þú náir að öðlast hana, en ef ekki þá er ágætlega fullnægjandi að vera einungis áhugamanneskja um leti, og ber ég því starfi vel söguna.

Dr. Curly McLaughlan

14.11.02

Mér hefur borist bréf frá stjórnanda sinfóníuhljómsveitar Espinho í Portúgal, Cesario Costa. Hann og Marcel maður minn eru nefnilega vinir og maður á nú víst að reynast vinur vina mannsins manns.

Spurning: Kæri vinur, ég er í algjörum bobba, ég held að hár mitt sé að þynnast með hverjum deginum sem líður. Mér býður við tilhugsuninni um þunnhærðan eða jafnvel sköllóttan Cesario. Þú þekkir mig og veist hvað útlitið er mér mikilvægt. Marcel, ég treysti á þig, þú ert besti vinur minn í heiminum og þú verður að hjálpa mér. Kannski getur Curly hjálpað.
The Stud.


Svar: Kæri Cesario. Það er auðvitað bölvað ólán að fæðast með þessa byrði fegurðar á bakinu. Marcel sagði mér að þú hefðir verið nefndur Amor á yngri árum, hefðir táldregið allar gömlu kvinnurnar í hverfinu aðeins 14 ára gamall og hefðir síðar rakað inn peningum sem nærfatagína í búðargluggum. Ég gef þér alla mína samúð. En gæti verið að Narcissus hafi tekið sér bólfestu í þér og þú sért sjálfur að gera þig sköllóttan með hroka og sjálfsdýrkun? Ég leyfi mér bara að velta þessu fyrir mér. Ég ráðlegg þér eindregið að fagna komu skallans - hann er táknræna fyrir nýja sjálfsmynd og lífssýn og mun án efa veita þér mun meiri lífsfyllingu en þú gerir þér grein fyrir. Ef vill svo til að tilgáta þín sé á rökleysu byggð - þá hvet ég þig samt sem áður til að raka af þér allt hár, prófa að sleppa rakstri í nokkra daga og límónulíkamsolían mætti einnig fá að fjúka. Þá fyrst byrjar þér að líða eins og manni með persónuleika og komplexa eins og við hin.

Virðingarfyllst,
dr.Curly.

Kæri Dr. McLaughlan:

Innlegar þakkir fyrir þitt óeigingjarna framlag til víðernis sálarinnar. Mig langar að bera undir þig vandamál sem ég ræð ekki fram úr. Svo er mál með vexti að ég hef tilhneigingu til að setja frumkvæði mínu þvílíkar skorður að eftir stendur eitthvert torkennilegt gímald án sýnilegra landamæra. Ég hef reynt að sniðganga allt það sem hugsanlega gæti orðið til þess að hrófla við þeim stöðugleika sem ég virðist hafa skapað mér, án þess þó að bera þess augljós merki á yfirborðinu. Þetta hefur orðið til þess að stundum finnst mér ég ekki vera til, nema kannski sem óhrein spegilmynd af sjálfum mér. Upp á síðkastið hef ég reynt ýmislegt, m.a. árunudd og fjallagrös, en án árangurs. Það er eins og ég sé fangi í Vetrarbrautinni og lykillinn sé falinn einhvers staðar úti í tóminu. Þar að auki er ég með óreglulegar hægðir.

Vonast til þess að þú getir ráðið fram úr þessu ,áður en ég gríp til örþrifaráða, eins og að troða candy floss upp í öll vit áður en ég fer að sofa. Virðingarfyllst,
Karel Kierkegaard

--------------------------------------------
Kæri Karel Kierkegaard,

Varðandi þitt torkennilega frumkvæðisgímald sem bæði hefur fastar skorður sem og engin landamæri - þá get ég nú sagt þér að þetta er ofureðlileg tilfinning. Öllum finnst okkur við á einhverjum tímapunkti vera negld niður og skorðum sett, en á sama hátt eins og við séum aðeins lítilfjörlegt korn í fjöldanum, atóm í óendanleikanum. Fanginn í Vetrarbrautinni er einnig af sama sepanum sprottinn. Ég ráðlegg þér því að draga djúpt andann, taka óhikandi frumkvæðið og bara...vera. Ef þetta virkar ekki þá er ágætt að fara innan um margt fólk og velja þér hæsta staðinn til að standa á, svo þú rísir þeim ofar. Og sjá, ef þú værir ekki þar sem þú ert – þá væri hópurinn ekki sá sami. Hugsaðu út í þetta, Karel.

Stöðugleikaviðhróflunarhræðslan sem sést ekki á yfirborðinu er á sama hátt algert skólabókardæmi. Svarið er einfalt: Púslum orðinu stöðugleikaviðhróflunarhræðsla (sem á latínu er nefnd equilibrium molestartem puntissimo) öðruvísi saman – og þá fáum við: hræðslustöðugleikaviðhróflun – sem þýðir auðvitað að viðhróflunin er góðkynja þar sem hún hrindir úr vegi hræðslunni við stöðugleika. Og hvað færðu ef þú hróflar við hræðslu? Enga hræðslu. Og hvað stendur þá eftir? Stöðugleiki. Herra minn Kierkegaard, þú ert því samkvæmt mínum kokkabókum mjög stöðugur en vissir það bara ekki fyrr en nú.

Það kemur mér aldeilis ekki á óvart að þú skulir vera með óreglulegar hægðir – allt er þetta beintengt. Nú þar sem ég hef staðfest stöðugleika þinn muntu sjá reglulegri hægðir. Það er auðvitað hægðunum að kenna að þér finnst spegilmynd þín óhrein. Ef þú ert óhreinn að innan ertu óhreinn að utan. Og tilvistarleysi þitt svokallaða er því að kenna að þú ert rökvís maður sem ályktar að dauðir menn hafi ekki hægðir. Ef þú hefur haft hægðatregðu hefur þér fundist þú eiga eilítið sameiginlegt með dauðum – og það hefur angrað þig. Einnig hefur gímaldið sett sitt strik í þennan reikning.

Nú ráðlegg ég þér einfaldlega að leggja af stað í leit að Lyklinum. Ef þú lokar augunum, finnur Fangann í þér og tekur því að hann sért þú, þú sért hann, þá mun leysast úr læðingi einhver yfirskilvitleg orka og ásamt gímaldinu farið þið tríóið út á stöðuga vetrarbrautina og þið munið komast að því að lykillinn leynist ekki þar. Ekki leita langt yfir skammt. Þú veist hvað ég meina.

Virðingarfyllst,
Dr. Curly.

p.s. Reyndar er Candy floss ágætis lyf við hægðatregðu.


12.11.02

Arnaldo Hernandez, safnvörður í Prado safninu í Madrid sendi mér þessa spurningu:
"Kaera Curly,
ég er hrifinn af stelpu en hún á heima í odru landi.
Hvad get ég gert? Plís viltu svara thessu bréfi, ég er
búinn ad reyna allt."

Kæri Hr. Hernandez
Ég hef löngum aðstoðað ráðvillta menn sem búa í öðru landi en elskan þeirra. Það sem ég hef sagt hinum vinum mínum og mun nú segja þér er einfalt og áreiðanlegt.

Sendu henni bréf og segðu henni að þú hafir áreiðanlegar heimildir fyrir því að
a) gróðurhúsaáhrif muni brátt gjöreyða landinu sem hún er stödd í, eða
b) landið sé næsta target Al Qaeda manna.

Ef það virkar ekki, leigðu þá leigumorðingja til að elta hana uppi og segja honum að hann skuli segjast þyrma henni ef hún lofi að láta sig hverfa af landinu. Þú verður auðvitað að vera í góðu email eða símsambandi við hana á meðan á öllu þessu stendur, svo landið þar sem þú dvelur (í þínu tilfelli Spánn) og armar þínir séu það sem verður fyrir valinu.

Þetta er ljót en áhrifarík aðferð, og óska ég þér alls hins besta.

Dr.Curly

p.s. Ekki tala við Guðjón G.Hagalín, hann hefur reynst mönnum illa, hefur oft þyrmt stúlkunum og flekað þær sjálfur.



Fyrirspurn barst frá Jóni Ólafssyni tónlistarfrömuði. ,,Geta blindir hlustað á tónlist? Ef ekki, hvað gera þeir sér til stundargamans?"

Svar: Nei, það geta þeir ekki. Vegna þess að fyrir tilstilli sjáanlegra hljóðbylgna sem víbrera er þær komast í samband við augnsjáaldrabylgjur skapast það sem við kjósum að nefna tón-list. Orðinn tónn er upphaflega komið úr gríska orðinu toni- sem merkir núans, og hefur orðið oft verið notað á íslensku í merkingunni litur/skuggi - og er þá einnig sagt "að tóna vel við e-ð". List er einnig komið af spænska orðinu listo - sem merkir að vera tilbúinn. Orðið þróaðist í borgarastyrjöld Spánar frá því að þýða tilbúinn (því sem borgarar öskruðu áður en þeir réðust á mann og annan) í það að þýða Sjáið (varð að almennri kröfu um athygli manna). Því má fullyrða að tónlist sé blindum það sem skór eru fótalausum.

Blindir geta samt sem áður stytt sér stundir með ýmsum skemmtilegheitum, svo sem dansi, púsli og útsaumi.

Ég vona að þetta hafi svarað spurningu þinni, Jón.
Virðingarfyllst, dr. Curly

9.11.02

Nýtt!!
Dr. Curly McLaughlan svarar spurningum lesenda um lífið og tilveruna!!

Verið óhrædd að stíga inn í hringinn og láta umturna lífi ykkar og afstöðu til lífsins. Curly er óstöðvandi lífshamingjugjafi, og hún getur breytt þínu lífi líka, rétt eins og þeirra þúsunda sem hún hefur starfað með í gegnum árin á heimalandi sínu Írlandi, Skotlandi, Bandaríkunum, Kanada, Frakklandi og Tansaníu.

Þetta er ofureinfalt ferli. Þið sendið fyrirspurn eða athugasemd á netfang mitt: marcel_michelin@yahoo.fr og ég kem því til doctor Curly.

Virðingarfyllst,
Marcel Michelin, umboðsmaður, ritari og eiginmaður dr. Curly.